Djammaði í Amsterdam með eiturlyfjabarón sem var myrtur

Mynd: . / Úr einkasafni

Djammaði í Amsterdam með eiturlyfjabarón sem var myrtur

07.07.2020 - 13:04

Höfundar

„Ég og vinkona mín kynntumst mjög skemmtilegum manni í Hollandi í kring um 1990. Hann var ansi efnaður og átti flotta skútu,“ segir uppistandarinn Anna Þóra Björnsdóttir sem einnig rekur gleraugnaverslunina Sjáðu. Maðurinn sem hún kynntist í Amsterdam var þó ekki allur þar sem hann var séður og átti eftir að hljóta skelfileg örlög.

Uppistandarinn Jakob Birgisson ræddi við Önnu Þóru kollega sinn, um þennan hollenska vin hennar til skamms tíma, í Sumarsögum á Rás 2. „Við vorum ekki að spekúlera mikið hvað hann gerði, aðallega bara hvað hann var skemmtilegur og hress. En eitt sumarið, 1991, þá fengum við símtal og hann hafði verið myrtur.“ Hann hafði þá verið skotinn í hausinn fyrir utan Hilton-hótelið í Amsterdam. „Að sjálfsögðu ákváðum við að fylgja manninum. Við ætluðum að fljúga til Amsterdam en sváfum aðeins yfir okkur þannig við misstum af því flugi og flugum til Lúxemborgar og leigjum þar rauðan sportbíl með blæju.“ Vinkonan samþykkti að keyra til Amsterdam og Anna Þóra keypti sér hvítvín til að vökva sig á leiðinni.

„Við keyrum og ég er orðin rallhálf í helvíti góðu stuði þarna í framsætinu. Það var hitabylgja í Evrópu og við fórum úr að ofan og vorum brjóstahaldaranum með blæjuna niðri og keyrðum mjög greitt til Amsterdam, áður en við vissum af vorum við komnar með ansi marga snarklikkaða karla á bílum í kring um okkur.“ Þær komust þó ómeiddar til Amsterdam og tékka sig inn á hótelið þar sem Anna Þóra ákveður að fá sér eitt hvítvínsglas til og lendir á spjalli við hollenskan blaðamann sem spyr hvað hún sé að gera í Amsterdam. „Þegar ég sagði honum hjá hvaða manni ég var að fara í jarðarför missti hann algjörlega andlitið. Þá var þetta stærsti eiturlyfjasali Evrópu. Ægilega mikið ljúfmenni og góður maður en seinna meir fréttum við að hann hefði losað sig við sjö manneskjur, stundum þarf að gera það.“

Vinkonurnar grunaði ekki að neitt misjafnt væri á seiði þegar þær heimsóttu hann. „Við höfðum ekki hugmynd um það, við vorum bara ljóshærðar og bláeygðar að dinglast á einhverri flottri skútu. Það komu lífverðir á Bentley með rósir, og þetta var bara með skemmtilegri mönnum sem ég hef kynnst.“ Þær kynntust honum á næturklúbbi í Amsterdam. „Hann keypti fyrir mig gin og tónik sem er svona minn drykkur.“ Það tókst svo með þeim ágætis vinátta. „Honum var annt um Bjössa [Björn Leó handritshöfund og leikskáld, son hennar], hann hringdi einu sinni og spurði hvort ég væri að koma með þessari vinkonu minni til Hollands, og ég sagði honum að Björn Leó væri með skarlatssótt. Hann var mjög stressaður þegar hann heyrði sjúkdómslýsinguna og sagði: Now I send a helicopter with a doctor. Hann treysti greinilega ekki íslenska heilbrigðiskerfinu fyrir barninu.“

Maðurinn sem stöllurnar kynntust hét Klaas Bruinsma og var stórtækur eiturlyfjasali á alþjóðamarkaði en um hann hefur verið gerð Netflix-heimildarmynd. „Hún gefur ekki rétt lýsingu á honum,“ segir Anna Þóra. Hún bætir við að hún og þessi tiltekna vinkona hennar eigi það til að lenda í miklum ævintýrum þegar þær skemmta sér saman. „Við erum aldrei hræddar, það eru alltaf einhverjir verndarenglar yfir okkur. Við sáum aldrei eiturlyf eða einhverja vitleysu. Fengum okkur bara gin og tónik og fórum á diskótek.“ Þær hittu Bruinsma fyrst stuttu fyrir jól og komu svo aftur í heimsókn í janúar. Þá einn morguninn koma þær niður á hótelbarinn pínu þreyttar eftir galeiðu gærkvöldsins. „Þá er frekar kraftalegur maður sem situr út í horni og horfði svolítið á okkur.“ Þær spyrja barþjóninn um hvað þær ættu að borða eða drekka til að lækna þynnkuna og hann kynnt þær fyrir nýju lögmáli. „Hann spurði á hverju við höfðum endað, og við sögðum gin og tónik. „Já, þá byrjið þið þar, það er reglan“. Ég hef reynt að fylgja þessari reglu síðan.“

Jakob Birgisson ræddi við Önnu Þóru Björnsdóttur í Sumarsögum. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í útvarpsspilara RÚV.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Hvaða andskotans fíflagangur er þetta?“

Leiklist

„Það er svo auðvelt að vera dónalegur”

Mannlíf

Gerir stólpagrín að sjálfri sér

Mannlíf

Uppistand betra en bollakökunámskeið