Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Bretar beita viðskiptaþvingunum við mannréttindabrotum

07.07.2020 - 04:46
epa08531119 A handout image released by 10 Downing Street, shows Britain's Foreign Secretary Dominic Raab signing a letter to fellow MPs, in the Foreign & Commonwealth Office following the launch of new Human Rights Sanctions in London, Britain 06 July 2020.  EPA-EFE/PIPPA FOWLES / N10 DOWNING STREET HANDOUT This image is for Editorial use purposes only. The Image can not be used for advertising or commercial use. The Image can not be altered in any form. Credit should read Pippa Fowles/n10 Downing street. HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - N10 DOWNING STREET
Bresk stjórnvöld beittu í gær viðskiptarefsingum gegn nærri fimmtíu einstaklingum og stofnunum vegna mannréttindabrota. Þetta er í fyrsta sinn sem Bretar gera slíkt án samstarfs við Sameinuðu þjóðirnar eða Evrópusambandið. 

Meðal þeirra sem Bretar refsa eru einstaklingar sem eiga þátt í dauða rússneska lögmannsins Sergei Magnitsky árið 2009. Breskar eignir þeirra verða frystar og þeir fá ekki að koma til landsins. Eins er sádiarabískum embættismönnum sem tóku þátt í morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi refsað. Dominic Raab, utanríkisráðherra Breta, sagði stjórnvöld með þessu senda skýr skilaboð um að Bretar taki hart á böðlum einræðisherra og hrottum harðstjóra.

Auk Rússa og Sáda voru tveir hátt settir herforingjar í Mjanmar á listanum fyrir ofbeldi gegn Róhingjum og öðrum minnihlutahópum, auk tveggja stofnana sem taka þátt í vinnuþrælkun, pyntingum og morðum í þrælakistum Norður-Kóreu.

Rússneska sendiráðið í Lundúnum sendi frá sér yfirlýsingu þar sem segir að Bretar geti átt von á mótsvari. Þetta eigi ekki eftir að bæta samskipti ríkjanna.