Áfram verði hægt að taka tvö þúsund sýni á dag

07.07.2020 - 19:49
Mynd: RÚV / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist staðráðin í að tryggja að áfram verði hægt að skima tvö þúsund manns á sólarhring þótt Íslensk erfðagreining hætti þátttöku við landamæraskimun. 

„Stefnan er tekin á það að þetta geti gengið snurðulaust fyrir sig áfram. Ég er búin að funda með ýmsum aðilum í dag, þar á meðal forstjóra Landspítalans, og þau hafa auðvitað verið að undirbúa sýkla- og veirufræðideildina til þess að koma með miklu meira afgerandi hætti inn í þetta verkefni,“ segir Katrín í viðtali í kvöldfréttum.   

Forstjóri Landspítalans fullvissað hana um að þetta gangi

Katrín segist hafa óskað eftir því að Landspítalinn flýti sínum áætlunum og taki hraðar við þessu verkefni. Forstjórinn hafi fullvissað hana um að það myndi ganga upp. Hún segist hafa gert ráð fyrir samstarfinu við Íslenska erfðagreiningu út júlí en hafi þó skilning á því að fyrirkomulagið sé ekki varanlegt. Hún bindi vonir við að geta áfram leitað í þekkingu og reynslu fyrirtækisins. 

Aðspurð hvort stjórnvöld hefðu ekki átt að vera löngu búin að taka þau skref sem nú eru tekin segir Katrín að vafalaust megi deila um það. „En við höfum auðvitað verið að læra eftir því sem þessum verkefnum vindur fram, það er í raun og veru ótrúlega stuttur tími síðan skimunin hófst,“ segir Katrín.  

Hún segir að það sé örugglega matsatriði hversu góð samskipti stjórnvalda hafi verið við Íslenska erfðagreiningu en þau hafi „notið mjög góðs af þeirri reynslu og þekkingu“ sem fyrirtækið býr yfir. 

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi