Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„TikTok skoðar allt við símann þinn“

06.07.2020 - 08:55
Mynd: EPA-EFE / EPA
Kínverska símaforritið TikTok, sem er meðal stærstu samfélagsmiðla í heimi með um 800 milljónir notenda, fylgist betur með notendum sínum en þá grunar. Guðmundur Jóhannsson, tæknisérfræðingur Morgunútvarpsins og samskiptastjóri Símans, segir það nýjung að símaforrit fylgist með textanotkun líkt og TikTok geri.

Forritið fylgist mun meira með notendum en margir halda

„TikTok skoðar allt við símann þinn,“ sagði Guðmundur í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Við nánari skoðum megi sjá að TikTok fylgist mun betur með notendum sínum en margir gera sér grein fyrir. Nefnir Guðmundur sem dæmi raðnúmer, stærð skjásins, örgjörva, minni, ip -tölu, nafnið á þráðlausa netinu, mac adressu eða símanúmerið á tækinu, hvaða forrit eru á símanum  og GPS staðsetningu símans, upplýsingar sem forritið uppfæri á 30 sekúndna fresti. Þetta séu allt upplýsingar sem forritið safnar.

Forritið hefur einnig aðgang að lyklaborðinu og skoðar klippispjaldið í símanum þar sem allur texti sem notendur afrita og líma er vistaður. „Það er nýtt að forrit fylgist með textanotkun með þessum hætti,“ segir Guðmundur. 

Indland bannaði fyrir viku forritið í landinu ásamt rúmlega fimmtíu öðrum kínverskum símaforritum eftir að aukin harka færðist í landamæradeilur milli Indlands og Kína í Himalaya-fjöllum. Indversk yfirvöld söguðst verja friðhelgi Indverja með banninu.

Innbyggð ritskoðun í algríminu

Guðmundur segir að rík ritskoðun sé forrituð í algrím TikTok. Algrími sé aldrei hlutlaust en það hafi sýnt sig að litarhaft fólks hafi áhrif á hve vinsæl myndbönd verði, eða hvort þau „trendi“. Einnig rísi myndbönd sem sýna samkynhneigð í jákvæðu ljósi ekki til vinsælda. 

Ýmis önnur málefni eru ritskoðuð svo sem torg hins himneska friðar, sjálfstæðisbarátta Kúrda, mótmælin í Hong Kong út frá sjónarhóli Hong Kong búa, fátækt og ungar óléttar konur.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV