„Þetta er hreint og beint skemmdarverk“ 

06.07.2020
 Mynd: Eiríkur Guðmundsson/RÚV - RÚV

„Þetta er hreint og beint skemmdarverk“ 

06.07.2020 - 13:50

Höfundar

Listaverk eftir Jakob Wagner sem er unnið á hluta úr fallna Berlínarmúrnum var skemmt um helgina. Andlit á verkinu hefur verið afmáð, líklega með steinkasti.

 

„Þetta er hrikalegt að sjá,“ segir Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna hjá Listasafni Reykjavíkur. „Okkur er mikið í mun að laga þetta, maður skilur ekki hvað fólki gengur til. Þetta er hreint og beint skemmdarverk.“ 

Eiríkur Guðmundsson, íbúi í hverfinu, varð var við skemmdarverkin þegar hann átti leið hjá verkinu á sunnudagskvöld og tók meðfylgjandi mynd. „Mann grunar að þetta hafi verið gert á laugardagskvöldið með steinkasti,“ segir Eiríkur í samtali við fréttastofu. Litlar gangstéttarhellur liggja við listaverkið og liggja molar úr verkinu á víð og dreif. 

Listamaðurinn endurgerði verkið fyrir íslenska veðráttu

Reykjavíkurborg fékk verkið að gjöf í október árið 2015 frá listamiðstöðinni Neue West Berlin. Listasafn Reykjavíkur fékk Wagner til að endurgera verkið í ágúst 2017 til þess að verkið væri betur til þess fallið að þola íslenskt veðurfar. Þá hafði myndin á múrnum verið farin að afmást.

Aðspurður hvort skemmdarverkið verði kært til lögreglu segir Sigurður Trausti: „Það er eitthvað sem við þurfum að skoða.“

 

Tengdar fréttir

Innlent

Berlínarmúr í Borgartúni fær andlitslyftingu