Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Reyna að halda geðdeildum opnum í sumar

06.07.2020 - 19:46
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Geðdeildum verður ekki lokað eins og seinustu sumur vegna mikillar eftirspurnar eftir þjónustu. Starfandi forstöðumaður geðþjónustu Landspítalans segir að fjölga þurfi sértækum búsetuúrræðum.

Eftirspurn eftir geðheilbrigðisþjónustu á sjúkrahúsum hefur farið vaxandi undanfarna mánuði.  992 beiðnir bíða afgreiðslu á sjúkrahúsinu. Sumir eru með fleiri en eina beiðni í vinnslu, og því er ekki hægt að fullyrða að svo margir séu að bíða eftir þjónustu.

Aukið álag samhliða faraldrinum

Langflestar beiðnir, eða alls 955, bíða greiningar eða meðferð á göngudeild. 28 beiðnir tengjast meðferð á dagdeild. Flestir sem bíða þess hafa lokið meðferð á legudeildum geðþjónustunnar. Biðtími hefur verið að lengjast undanfarna mánuði. Starfsfólk á geðsviði Landspítala hefur fundið fyrir auknu álagi en vill ekki fullyrða að það sé vegna kórónuveirufaraldursins.

„Ég veit það ekki hvort að það er vegna Covid eða efnahagsástandsins. Það má alveg velta því fyrir sér. En okkur finnst mörgum, ég er ekki ein um það að það hafi verið meira að gera á þessum árstíma miðað við seinustu sumur.“ segir Eyrún Thorstenssen, afleysingaforstöðumaður geðþjónustu Landspítala.

Undanfarin ár hefur þurft að loka hluta geðdeildar Landspítalans, en það verður reynt að halda opnu eins og hægt er í sumar vegna mikillar eftirspurnar.

„Það var lokað núna rétt fyrir mánaðamót, júní júlí. Þá var 15  rúmum lokað. En við þurftum í rauninni að bakka með það. Við erum ekki með nein pláss lokuð eins og er, en við þurfum bara að meta það dag frá degi. Við þjónustum að sjálfsögðu þá sem þurfa á því að halda,“ segir Eyrún.

Hætta á að lenda í vítahring

Í fréttum í gær var sagt frá máli manns sem sér fram á að lenda á vergangi að útskrift lokinni þar sem hann er á biðlista eftir úrræði hjá Reykjavíkurborg. Eyrún segir stuðning við sjúklinga að lokinni útskrift skipta höfuðmáli í bataferlinu. Þarfir hvers og eins séu mismiklar og breytilegar. Spítali og sveitarfélög reyni eftir fremsta megni að finna úrræði við hæfi, en þau séu ekki alltaf í boði. Því sé hætta á að sjúklingar þurfi að leita aftur til spítalans.

„Þá vitum við að það getur brugðið til beggja vona. Sumir veikjast þá mjög hratt og þurfa að koma aftur til okkar.“

Er það algengt?

Það gerist alveg.  Það er ekkert alltaf vegna þess að fólk hafi farið í óviðunandi úrræði eða fái ekki þjónustu. Það getur alveg verið líka af því að fólk veikist aftur vegna síns sjúkdóms.“ 

Hvernig er hægt að rjúfa þennan vítahring?

„Það er skortur á sérstaklega sértækum búsetuúrræðum. Þó að sveitarfélögin reyni að vinna eins hratt og þau geta þá er bið og skortur. Það getur verið mikil óvissa tengt því, það þyrfti að fjölga þessum sértæku búsetuúrræðum sem er fyrir veikasta hópinn.“ segir Eyrún.