Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Landspítali fer yfir athugasemdir um umbun fyrir COVID

06.07.2020 - 12:29
Mynd með færslu
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Stjórnendur á Landspítala ætla að fara yfir athugasemdir frá starfsfólki um greiðslu umbunar fyrir álag í kórónuveirufaraldrinum. Forstjórinn segir greiðsluna ekki laun, heldur táknrænan þakklætisvott.

Geta fengið allt að 250 þúsund krónur

Umbunin var greidd 1. júlí og hafa margar athugasemdir borist og skrifaði Páll Matthíasson forstjóri í pistli sínum á föstudag og 19. júní

„Við þurftum að vinna þetta hratt og gerum okkur grein fyrir því að allt orkar tvímælis þá gert er og það er erfitt að finna leið sem öllum líkar þannig að við lögðum lítinn hluta af upphæðinni til hliðar bara til að koma til móts við athugasemdir sem að væru vel rökstuddar og kæmu fram,“ segir Páll. 

Hann segir margar athugasemdir hafa borist og að farið verði yfir þær og því verði lokið fyrir haustið.

Umbunin var reiknuð þannig að starfsfólk, sem starfaði á deildum sem mest þjónuðu Covid-smituðum, var sett í hóp A og fólk á öðrum deildum í B hóp. Þá var reiknuð út viðvera starfsmanns í mars og apríl og nam umbunin allt að 250 þúsund krónum fyrir fólk í A hópi og 105 þúsundum fyrir fólk í B hópi.

Stjórnendur spítalans fá hins vegar enga greiðslu.

Ekki laun heldur þakklætisvottur

Samtals var einum milljarði króna að meðtöldum launatengdum gjöldum úthlutað til heilbrigðisstarfsfólks í fjáraukalögum. 

„Það er rétt að hafa í huga að þessi umbun hún er ekki laun. Hún er hugsuð sem þakklætisvottur til þessa framúrskarandi starfsfólks sem á mjög óeigingjarnan hátt lagði sig fram um að bregðast við farsóttinni. Og það verður að hugsa hana á þann hátt, meira sem táknrænan þakklætisvott.“