Íslensk erfðagreining hættir að skima fyrir stjórnvöld

06.07.2020 - 14:04
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Íslensk erfðagreining ætlar að hætta aðkomu að skimunum fyrir kórónuveirunni hér á landi. Þetta kemur fram í opnu bréfi Kára Stefánssonar til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Hann segir Íslenska erfðagreiningu ekki ætla að afgreiða fleiri sýni eftir 13. júli.

Bréfið birtir hann á Vísi.is. „Frá og með deginum í dag 6. júlí munum við hætta öllum samskiptum við sóttvarnarlækni og landlækni út af SARS-CoV-2. Síðustu sýnin sem við munum afgreiða eru þau sem berast til okkar á mánudaginn 13. júlí,“ segir Kári í bréfi sínu til forsætisráðherra.

Kári birtir bréfasamskipti sín við Katrínu

Í opna bréfinu í dag birtir Kári bréf sitt til ríkisstjórnarinnar frá 1. júlí og svar Katrínar frá 4. júlí.

Kári leggur til í fyrsta bréfi sínu stofnuð verði sérstök Faraldsfræðisstofnun Íslands sem geti tekið við skimunum af Íslenskri erfðagreiningu. Stofnunin myndi heyra undir sóttvarnalækni og Kári býður fram húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar fyrir stofnunina fyrsta kastið, enda er þar fyrir mikil reynsla og þekking af verkefninu.

Katrín svaraði Kára þann 4. júlí og segist ælta að taka þessa tillögu Kára til skoðunar og úrvinnslu. „Því hefur verið ákveðið að ráða verkefnastjóra undir yfirstjórn sóttvarnalæknis,“ segir Katrín í svarinu. Verkefnastjórinn hefur fengið það verkefni að skila tillögu til ríkisstjórnarinnar um verkefnið sem fyrst en eigi síðar en 15. september.

Kári leggur út af þessu svari Katrínar í opna bréfi sínu í dag og segir það ljóst að þetta vandamál sé ekki eins brátt í huga ríkisstjórnarinnar og Íslenskrar erfðagreiningar, og að Katrín gangi út frá því sem vísu að Íslensk erfðagreining ætli að halda skimuninni áfram. 

„Og það sem meira er þér liggur ekkert á að setja saman apparat til þess að taka við af okkur. Þetta gengur einfaldlega ekki,“ skrifar Kári í bréfinu. 

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi