Hreindýr, fossar og fegurð á Austurlandi

Mynd með færslu
 Mynd: hreindýr

Hreindýr, fossar og fegurð á Austurlandi

06.07.2020 - 15:32
Í þessari viku förum við í ferð um Austurland, byrjum á Höfn í Hornafirði og endum ferðina á Seyðisfirði. Það eru að sjálfsögðu fjölmargir áhugaverðir staðir til að skoða á leiðinni, góður matur og nóg af náttúruperlum.

RÚV núll tekur saman hugmyndir að nokkrum skemmtilegum ferðum í sumar fyrir fjölskyldur eða vini undir nafninu Pakkaferð RÚV núll. Í ferðinni sem hér er lýst er gert ráð fyrir fjórum dögum á fallegum stöðum. Að sjálfsögðu er hægt að hafa ferðina styttri eða lengri, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. 

Nýlega gerðum við pakkaferð þar sem ferðast var frá höfuðborgarsvæðinu á Höfn í Hornafirði. Hana er að sjálfsögðu hægt að nýta líka, skella þessum tveimur ferðum saman og þú ert kominn með glæsilega tíu daga ferð eða svo. Hér ætlum við að hefja ferðina á Höfn í Hornafirði en að sjálfsögðu er hægt að leggja í þetta ferðalag hvaðan sem er og nýta hugmyndirnar til að skapa hið fullkomna ferðalag.

Dagur 1
Við fáum okkur góðan morgunmat á Höfn og höldum svo af stað á eftir þjóðveginum góða. Í dag keyrum við 103 km, frá Höfn á Djúpavog. Fyrsta stopp er Skútafoss, þar sem jafnvel væri hægt að fara í lautarferð. Fyrir aftan fossinn er svo lítill hellir sem gaman er að skoða. Hinum megin við veginn, gegnt fossinum er svo að finna risavaxinn rauðan stól sem er auðvitað tilvalinn í eins og eina Instagram-mynd. Pössum okkur bara ef við ætlum að ganga yfir.

Mynd með færslu
 Mynd: Rauði stóllinn
Rauði stóllinn

Svo höldum við áfram og njótum náttúrunnar á leiðinni en næsta stopp er Hálsaskógur sem er um klukkutímaakstur frá Skútafossi. Í Hálsaskógi er skemmtileg gönguleið fyrir alla fjölskylduna, fá sér smá nesti og svo þarf auðvitað að syngja vögguvísu, þar sem við erum nú í Hálsaskógi.

Þaðan er svo ekki nema örfáar mínútur á Djúpavog þar sem við gistum í kvöld, skoðum bæinn og njótum alls þess sem hann hefur upp á að bjóða. Á Djúpavogi má til að mynda finna Eggin í Gleðivík eftir Sigurð Guðmundsson, risavaxin útilistaverk af fuglseggjum.

Mynd með færslu
 Mynd: Skútafoss
Skútafoss

Dagur 2
Við byrjum daginn á sundspretti í sundlauginni á Djúpavogi og leggjum svo í hann. Í dag keyrum við 144 km og endum daginn á Eskifirði. Fyrsta stopp við veginn er Sveinsstekksfoss, höldum svo áfram á veginn, komum við í Havarí þar sem væri jafnvel hægt að fá sér bæjarins bestu Berufjarðar-bulsu í hádegismat. Það er mikil dagskrá í Havarí í sumar svo ef heppnin er með þér gætir þú gætir lent á góðum tónleikum þar.

Áfram höldum við nú, keyrum í gegnum Breiðdalsvík að næsta stoppi, Stöðvarfirði, þangað er ekki nema 20 mínútna akstur og þar er gaman að koma við á Steinasafni Petru. Við höldum áfram, keyrum inn Fáskrúðsfjörð, förum fram hjá Reyðarfirði og endum loks á Eskifirði. Þar er bæði gott tjaldsvæði og önnur gisting. Gaman er að fá sér göngutúr um bæinn og skoða sjóhúsin sem standa út í fjörðinn.

Mynd með færslu
 Mynd: Steinasafn Petru
Steinasafn Petru

Dagur 3
Í dag keyrum við frá Eskifirði á Seyðisfjörð sem er ríflega 75 km akstur. Á Austurlandi eru hreindýr víða á vappi, svo það eru heilmiklar líkur á því að þið verðið heppin og sjáið hreindýr á leiðinni, smá jólastuð svona yfir hásumarið. Við brunum áleiðis í Egilsstaði og fáum okkur góðan hádegismat þar, skoðum bæinn og skellum okkur í sundlaugina áður en við förum yfir á Seyðisfjörð þar sem við gistum í nótt.

Á leiðinni förum við fram hjá bæði Fardagafossi og Gufufossi og svo er þetta líka vegurinn sem Ben Stiller var á hjólabretti á í kvikmyndinni Walter Mitty. Mælum samt ekkert sérstaklega með því að leika það eftir.  
 

Dagur 4
Þessi dagur fer bara í það að njóta á Seyðisfirði. Skellum okkur í Tvísöng og tökum lagið, kíkjum í Bláu kirkjuna og röltum regnbogagötuna. Þetta er síðasti dagurinn í þessari ferð en þó er hægt að skoða aðra ferðapakka hér fyrir neðan og fara jafnvel allan hringinn í kringum landið, fyrst við erum nú þegar kominn alla leið hingað.

Mynd með færslu
 Mynd: Seyðisfjörður
Seyðisfjörður

RÚV núll setur fram tillögur að skemmtilegum ferðalögum í sumar.

Tengdar fréttir

Fimm daga ferð um náttúruperlur Norðurlands

Snæfellsnes og Flatey á Breiðafirði á fjórum dögum

Í návist jökla, fossa og heitra lauga á fjórum dögum

Fimm daga ferð um Vestfirði og ótrúleg náttúrufegurð