Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Grjóthrunið í Esju líklega af mannavöldum

06.07.2020 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Bjarklind - RÚV
Grjóthrun í Esju yfir göngustíg þar sem fólk var á ferð í gær varð líklega af mannavöldum, segir jarðverkfræðingur. Göngufólk átti sig ekki á því að litlir steinar sem falli undan því geti komið skriðum af stað. 

Stígurinn undir klettabelti

Hrunið varð á ellefta tímanum í gærmorgun og stórt grjót féll úr klettabeltinu austan við Þverfellshorn og yfir eystri göngustíginn upp að svonefndum Steini. Sú leið er lengri en sú sem er oftast er farin. Tvær konur sem voru á göngustígnum náðu naumlega að forða sér undan skriðunni, segir í færslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, og að önnur þeirra hafi hlotið smávægileg meiðsl. 

„Það geta auðveldlega rúllað steinar frá fólki sem er á ferðinni þar og er eitthvað að brölta án þess að það verði eitthvað sérstaklega mikið vart við það að það sé að senda af stað steina. Þeir geta síðan skoppað í annan stein og ýtt við þeim og þannig koll af kolli. Þannig geta þetta alveg verið sæmilegir steinar sem á endanum fljúga þarna niður,“ segir Jón Haukur Steingrímsson jarðverkfræðingur ráðgjafi Skógræktarfélags Reykjavíkur sem hefur umsjón með göngustígunum og útivistarsvæðinu á Esju.

Langlíklegast óviljaverk

Jón Haukur segir grjóthrun yfirleitt verða í bleytu eða leysingum en í þurru veðri eins og var í gær sé langlíklegast að hrunið hafi verið óviljaverk annars göngufólks. Hann segir að alltaf þegar gengið er í fjalllendi þar sem er frostveðrun og lausir steinar verði að hafa varann á sér. 

„Sérstaklega ef það eru einhverjir á ferðinni fyrir ofan. Og að sama skapi eru náttúrulega þeir sem eru að brölta í klettabeltinu þarna uppi, verða náttúrulega líka að átta sig á því að allt sem að hrynur frá þeim endar nánast undantekningalaust niðri á gönguleiðunum fyrir neðan og getur náttúrulega þá meitt og skaðað fólk sem er þar á ferðinni.“

Myndin er frá því 2018 þegar grjót var losað í Esjuhlíðum því talin var hætta á að það myndi hrynja á gönguleiðir.