Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fá mánuð til að sækja um stuðning

06.07.2020 - 16:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur undirritað reglugerð um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Reglugerðin byggir á samþykkt Alþingis um sérstakan stuðning við einkarekna fjölmiðla vegna COVID-19 faraldursins. 400 milljónum króna verður úthlutað til einkarekinna fjölmiðla á grundvelli umsókna. Umsóknum þarf að skila inn fyrir 7. ágúst. Þær á að afgreiða fyrir 1. september.

Alþingi samþykkti að styrkja einkarekna fjölmiðla til að koma til móts við tekjufall þeirra af völdum efnahagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins. Styrkja má einstaka fjölmiðla um allt að 25 prósent af launakostnaði og beinum verktakagreiðslum vegna blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna og ljósmyndara á síðasta ári vegna miðlunar á fréttm og fréttatengdu efni. Ekki má greiða neinum fjölmiðli meira en 25 prósent af heildarupphæðinni, 400 milljónum króna.

Í reglugerðinni eru tiltekin skilyrði fyrir úthlutun. Þar á meðal að um hún sé vegna stuðningshæfs rekstrarkostnaðar, að fjölmiðillinn sé skráður hjá Fjölmiðlanefnd eða hafi leyfi til hljóð og myndmiðlunar. Ennfremur að fjölmiðill sem óskar stuðnings bjóði upp á fjölbreytt efni sem ætlað sé fyrir almenning á Íslandi. Héraðsfréttamiðlar fá þó undanþágu frá þessu skilyrði. Fjölmiðillinn þarf að hafa staðið skil á opinberum gjöldum, skattframtölum og skilagreinum og skýrslum til fjölmiðlanefndar. Þá má fjölmiðlaveitan ekki hafa verið í fjárhagserfiðleikum fyrir síðustu áramót í skilningi reglugerðar framkvæmdastjórnar ESB frá 2014 um ríkisaðstoð. Lítil fyrirtæki eru undanþegin þessu ákvæði svo fremi að þau sæti ekki skiptameðferð eða gjaldþrotameðferð.