Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brugðist við samdrætti í sex sveitarfélögum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur falið Byggðastofnun að skoða stöðu mála í sex sveitarfélögum sem hafa orðið hart úti vegna niðursveiflu í ferðaiðnaði vegna kórónuveirufaraldursins.

Þau eru Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur, Skútustaðahreppur, Bláskógabyggð, Sveitarfélagið Hornafjörður og Rangárþing eystra. Ferðamennska hefur verið mjög ríkur þáttur í atvinnulífi þessara sveitarfélaga.

Þegar hefur verið hafist handa við aðgerðir til viðspyrnu á Suðurnesjum. Þetta kemur fram í þriðju stöðuskýrslu uppbyggingarteymis um félags- og atvinnumál í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Ætlunin er að meta hvort og hvernig úrræði sem stjórnvöld hafa þegar gripið til hafa nýst sveitarfélögunum og hvaða bolmagn þau hafi sjálf til samfélagslegra aðgerða.

Tillögur sem eiga að liggja fyrir í júlí eiga að varpa frekara ljósi á til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að styðja við atvinnulíf í sveitarfélögunum. Markmiðið er að styrkja undirstöður fjölbreyttara atvinnulífs til langframa og stuðla að nýsköpun.