Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

70% minni sýklalyfjanotkun meðal barna í faraldrinum

06.07.2020 - 21:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Læknar í Danmörku ávísuðu 70 prósentum minna af sýklalyfjum til barna í kórónuveirufaraldrinum en þeir gera alla jafna. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Landlæknis Danmerkur. Anders Beich, heimilislæknir og formaður Félags heimilislækna í Danmörku, segir að ýmislegt megi læra af faraldrinum, svo sem um mikilvægi hreinlætis á leikskólum.

Í Danmörku, líkt og víða um heim, var leikskólum lokað á meðan COVID-19 faraldurinn var sem skæðastur. Þeir voru opnaðir á ný um miðjan apríl. 70 prósent minna af sýklalyfjum var ávísað til barna, fjögurra ára og yngri, á meðan leikskólarnir voru lokaðir. Danska ríkisútvarpið, DR, hefur eftir Lars Eriksen Videbæk, deildarstjóra hjá Embætti landlæknis í Danmörku, að þessi samdráttur sé fordæmalaus. Samdráttur hafi verið í ávísunum sýklalyfja undanfarin ár en þetta sé miklu meira en áður hafi sést. 

Sjá einnig: Sýklalyfjaónæmi: ein mesta lýðheilsuvá samtímans

Fjöldi ávísana á sýklalyf til barna tók ekki kipp í maí. Videbæk segir að yfirleitt sé neysla sýklalyfja minni eftir að börn hafi verið í fríi með fjölskyldum sínum. Algengast sé að þau smitist á leikskólanum. Hann telur að ef til vill vari samdrátturinn enn þar sem víðast hvar sé meira hreinlæti eftir faraldurinn. Þá hugi fólk frekar að samskiptafjarlægð.  

Beich segir í samtali við Danska ríkisútvarpið að almennt á leikskólum hafi verið mörg börn í litlum rýmum, til að spara pening. Þá hafi sú þróun orðið síðustu ár að börn leiki sér minna útivið og að hreinlæti á leikskólum hafi víða verið ábótavant. Þá séu dæmi um að foreldrar hafi, í gegnum tíðina, sent börn sín hálf lasin í leikskólann. Þetta hafi breyst þegar flestir foreldrar unnu heima í faraldrinum. Það megi því ýmislegt læra af afleiðingum faraldursins. 

Meðal þess sem óhófleg neysla sýklalyfja getur haft í för með sér er ónæmi gegn lyfjunum og verri þarmaflóra. Beich leggur áherslu á að það sé ekki markmiðið að hætta að gefa börnum sýklalyf. Þau sem þurfi á þeim að halda fái þeim ávísað.