Vildu frekar festast á Íslandi þó þvotturinn yrði eftir

05.07.2020 - 19:18
Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson / RÚV - Bragi Valgeirsson
Íslendingar sem voru í háskólanámi erlendis neyddust til að skilja óhreina þvottinn við sig ytra til þess að komast aftur til landsins áður en landamæri í Evrópu lokuðust í vor. Þau eru fegin að hafa frekar verið föst á Íslandi.

Þau Sigríður Borghildur Jónsdóttir og Bjarni Tryggvason hafa undanfarin misseri verið búsett í Delft í Hollandi og stundað þar háskólanám. Sigríður var í helgarferð á Íslandi í mars þegar fregnir bárust af því að Evrópuríki væru að loka landamærum sínum eitt af öðru vegna kórónuveirunnar.

Skólinn var einnig að loka sínum byggingum, svo í stað þess að fara aftur út ákváðu þau að Bjarni myndi frekar koma sér heim sem fyrst - og ódýrast var að gera það samdægurs.

„Ég keypti flugið klukkan tíu og þurfti að vera kominn út úr húsi klukkan hálf eitt til að ná fluginu. Ég reif upp tvær ferðatöskur, tróð öllu sem mér datt í hug niður, lokaði og hljóp út. Það var ekki búið um rúmið og það voru bara föt úti um allt. Eins og einhver hefði hent sprengju þarna inn,“ segir Bjarni.

„Við í raun höldum að við séum bara að fara til baka eftir páska. Maður vissi ekkert þá,“ segir Sigríður.

Óþægilegt að geta ekki pakkað niður eigin dóti

Þegar ljóst var að þau væru ekki á leið út á ný ákváðu þau að segja upp leigunni og réðu flutningafyrirtæki til þess að þrífa íbúðina, pakka niður búslóðinni og koma í gám til Íslands.

„Þetta er svo óþægilegt, að geta ekki pakkað niður eigin dóti. Það er alveg glatað. Óhreina karfan okkar, geturðu sett hana í poka fyrir mig og gengið frá þessu og hinu,“ segir Sigríður.

Hætta á illa lyktandi gámum á leið til landsins

Þau náðu að sinna náminu áfram frá Íslandi og þrátt fyrir vandræðin eru þau þó fegin að vera frekar föst hér heldur en í Hollandi.

„Auðvitað er maður það, þegar maður sér fréttir og svona. Þetta er búið að ná miklu meiri útbreiðslu í Hollandi. Þeir byrjuðu á sænsku leiðinni, en þegar þeir sáu að það virkaði ekki fóru þeir í að hafa meiri takmarkanir og svoleiðis. Það var bara full seint,“ segir Sigríður.

Samband íslenskra námsmanna erlendis veit af fleirum sem lentu í svipaðri stöðu. Sjálf vita Bjarni og Sigríður af Íslendingum í Hollandi sem einnig ákváðu að koma heim með hraði.

Það eru þá kannski fleiri Íslendingar sem skildu eftir óhreinan þvott?

„Það er mikil hætta á því held ég, að það séu illa lyktandi gámar á leiðinni,“ segir Bjarni.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi