Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Viðbúið að lög um jarðakaup fari fyrir dóm

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Forsætisráðherra segir viðbúið að einhverjir reyni á lögmæti nýrra laga um jarðakaup fyrir dómstólum. Samkvæmt þeim mega tengdir aðilar ekki eiga meira en 10 þúsund hektara lands.

Lög um eignarráð og nýtingu fasteigna voru samþykkt á Alþingi í vikunni og í þeim eru meðal annars ákvæði um að afsali verði ekki þinglýst nema kaupverð eignar sé gefið upp og að sett verði á fót landeignaskrá þar sem nálgast megi upplýsingar um eigendur lands án endurgjalds. „Þar mun skapast yfirsýn bæði fyrir stjórnvöld og almenning í landinu hver á landið okkar og það tel ég nú bara vera mikilvægt skref í sjálfu sér,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Þurfa undanþágu ráðherra

Veigamestu breytingarnar, en jafnframt þær umdeildustu, felast í að landbúnaðarráðherra fær heimild til að setja hömlur á jarðakaup. Þannig getur fasteignakaupandi ekki eignast land ef hann eða tengdir aðilar eiga fyrir land sem er samanlagt 10 þúsund hektarar að stærð nema með sérstakri undanþágu frá ráðherra. „Og þá þurfi að vera mjög, mjög sterk rök fyrir því að slíkt landflæmi sé á hendi eins aðila. Það er um það bil 0,4 prósent af láglendi Íslands svo dæmi sé tekið.“

Félag Ratcliffs á móti

Á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt þetta ákvæði laganna er veiðifélagið Strengur sem er í meirihlutaeigu breska auðmannsins Jim Ratcliffe.  Í umsögn félagsins segir að þetta ákvæði geri það að verkum að Strengur geti ekki keypt fleiri jarðir.

Landeignir Ratcliffs, í gegnum hin ýmsu félög, eru langt umfram 10 þúsund hektara markið eins og fram kom í umfjöllun Kveiks. 

Í umsögn veiðifélagsins segir að ákvæðið brjóti ekki aðeins gegn EES-samningnum heldur einnig gegn stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu. Umsögninni fylgir 50 blaðsíðna lögfræðiálit Carls Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins.

Framkvæmdastjóri Strengs segist ekki hafa tekið ákvörðun um hvort látið verði reyna á lögmæti laganna en forsætisráðherra segir viðbúið að það verði gert. „Það kann vel að vera að þeir sem eru ósáttir við lögin telji þau ekki standast samninginn um Evrópska efnahagssvæðið en ég tel svo vera og þeir lögfræðingar og sérfræðingar sem hafa verið að vinna þessi mál fyrir mig lögðu fram mjög ítarlega og góða greinargerð til þingsins við þinglega meðferð sem ég tel að hafi svarað þeim spurningum,“ segir Katrín.

Lögin eru ekki afturvirk og því hafa þau ekki áhrif á núverandi eignarhald Ratcliffs.

Magnús Geir Eyjólfsson