„Verðum að standa í lappirnar og berjast fyrir höfunda“

Mynd:  / 

„Verðum að standa í lappirnar og berjast fyrir höfunda“

05.07.2020 - 12:21

Höfundar

Karl Ágúst Úlfsson, formaður Rithöfundasambandsins, telur ólíklegt að ákvörðun sænska raf- og hljóðbókafyrirtækisins Storytel að kaupa 70% hlut í Forlaginu hafi verið tekin með hag íslenskra bókmennta og tungu fyrir brjósti. Hann segist óttast að hún muni leiða til verri kjara fyrir höfunda.

Stjórn Rithöfundasambandsins fundaði á föstudag vegna kaupa sænska raf- og hljóðbókafyrirtækisins Storytel á 70% hlut í Forlaginu en kaupunum fylgir útgáfuréttur á íslenskum verkum. Mjög skiptar skoðanir eru á þessum tíðindum en Karl Ágúst Úlfsson formaður Rithöfundasambandsins segir að hann og margir aðrir sem starfi í þágu rithöfunda óttist að þróunin leiði af sér fákeppni á útgáfumarkaðnum nú þegar tvö fyrirtæki sem bæði hafi yfirburði í bókaútgáfu sameinist, þ.e. stærsta bókaútgáfa á Íslandi og streymisveita með einokunarstöðu. „Við höfum áhyggjur af því að þetta muni leiða til verri kjara,“ segir hann. Þá sé hann ekki eingöngu að vísa til launa og kjaramála heldur einnig þeirra valkosta sem höfundar standa frammi fyrir. „Við höfum áhyggjur af smærri útgáfum, að þær komi til með að eiga undir högg að sækja andspænis þessari samkeppni sem er eiginlega ekki samkeppni heldur yfirburðastaða. Þegar komið er risabatterí er hætt við að samningsstaða rithöfunda verði mun veikari, andspænis risa sem ræður því sem hann vill ráða.“ Hann bendir á að Ísland sé örlítið málsamfélag og segist hafa efasemdir um að fyrirtæki eins og Storytel, sem hreyki sér af því að skila hagnaði, kaupi íslenskt bókaforlag með hag íslenskra bókmennta og íslenskrar tungu að markmiði. „Ég stórefa það. Þetta fyrirtæki er til vegna þess að það er hægt að græða á því og það skilar miklum gróða. Það er hætt við að tungumálið lendi á klakanum og þeir sem bera hag þess fyrir brjósti eru ekki hjá þessu fyrirtæki.“ Með auknum umsvifum raf- og hljóðbóka á markaðnum hafi dregið úr sölu prentaðra bóka. „Það verður að skoða hvað þessi nýja tækni getur boðið höfundum og við sjáum ekki að það sé verið að bjóða þeim glæsilegan díl.“

Karl Ágúst bendir þó á að hann sé alls ekki að setja sig upp á móti hljóð- og rafbókum en segir að samningar og kjör þurfi að vera gagnsærri. Hann vonast til að geta stuðlað að því með samtali „Við verðum að eiga þetta samtal og koma okkar sjónarmiðum að. Svo þarf Rithöfundasambandið sem stéttarfélag að standa í lappirnar og berjast fyrir réttindum rithöfunda.“

Rætt var við Karl Ágúst Úlfsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Saga íslenskrar bókaútgáfu alltaf verið saga peninga“

Innlent

Áhyggjur af kaupum Storytel á Forlaginu

Bókmenntir

Segir sölu Forlagsins hafa komið öllum í opna skjöldu