
Vegurinn var lokaður í um 40 daga af 90
Bragi segir að veðurfar og færð hafi valdið þessum tíðu lokunum. Súðavíkurhlíð sé alltaf lokað þegar hætta er á snjóflóðum og þá sé mikið grjóthrun úr hlíðinni. Hann segir að lokanir á fyrstu þremur mánuðum ársins samsvari því að vegurinn hafi verið lokaður annan hvorn dag.
„Þetta hefur auðvitað þau áhrif að þeir sem eru með atvinnu á svæðinu geta lítið treyst á aðflutning og hráefnið í burtu. Svo er fólk að sækja atvinnu á milli, bæði frá Ísafirði og frá Súðavík og á milli byggðarlaga. Fólk er fast heima hjá sér,“ segir Bragi.
Segir öryggi íbúa ógnað
Hann segir að í þessu ástandi sé öryggi íbúa ógnað. Flytja hafi þurft veikt fólk sjóleiðina frá Súðavík til Ísafjarðar þegar vegurinn hafi verið lokaður. „Öryggisþátturinn er bara kapítuli út af fyrir sig. Ég veit að fólk hefur upplifað að það er sífelld hætta úr hlíðinni annaðhvort af völdum snjóflóða eða grjóthruns. Þetta er eiginlega viðvarandi allt árið um kring. Mörgum þykir bara óþægilegt að keyra þessa hlíð, bara hreint út sagt,“ segir Bragi.
Hvað myndir þú eða þið í sveitarstjórninni vilja að yrði gert? „Það er það sem voru áform uppi í eina tíð og var meðal annars kannað - að gera göng á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar. Þetta er eiginlega grundvallarforsendan fyrir því að hægt sé að líta á þetta sem eitt atvinnu- og þjónustusvæði, að það sé fær vegur hérna á milli á heilsársgrundvelli sem hægt er að treysta á,“ segir Bragi.