Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Tólf þúsund ára náma í neðansjávarhelli í Mexíkó

05.07.2020 - 06:44
Vísindamenn í Mexíkó birtu á föstudag niðurstöður margra mánaða rannsókna á neðansjávarhellum, þar sem áður var okkurnáma. Samkvæmt niðurstöðunum hófst námuvinnsla fyrir um tólf þúsund árum, um það leyti sem mannkynið dreifði sér um álfuna. 

Rannsóknin tók um 600 klukkustundir neðansjávar. Alls köfuðu vísindamennirnir um sjö kílómetra í þremur hellakerfum við Júkatan-skaga. Fjöldi fornminja hefur fundist, þá helst tæki til námugraftar. Deutsche Welle hefur eftir Eduard Reinhardt, einum vísindamannanna sem skrifaði greinina, að munirnir hafi allir verið óskemmdir. Því hafi verið hægt að sjá hvar hoggið var eftir okkri. Vinnutól fundust, steinvörðurnar sem voru reistar til að rata um hellana og eldstæðin sem voru notuð til að lýsa þá upp.

Um átta þúsund ár eru síðan hellarnir fóru á kaf, vegna hækkunar yfirborðs sjávar í kjölfar síðustu ísaldar.  Okkur er járnríkt litarefni sem menn notuðu til málningar á gripum og líkama. Víða er það enn notað af fólki í Afríku og Ástralíu. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV