Kólumbusi steypt af stalli og hent í höfnina

05.07.2020 - 08:45
Stytta af Kristófer Kólumbus í Baltimore.
 Mynd: Flickr
Mótmælendur í borginni Baltimore í Bandaríkjunum steyptu í nótt styttu af landkönnuðinum Kristófer Kólumbus af stalli. Fólkið batt reipi um styttuna, dró hana niður og fór með hana að höfninni þar sem henni var varpað í sjóinn.

Þetta er ekki fyrsta styttan af ítalska landkönnuðinum sem verður fyrir barðinu á mótmælendum, en nú líta margir svo á að hann hafi á sinni tíð verið helsti hvatamaður þjóðarmorðs á frumbyggjum Ameríku. Lítil en nokkuð umdeild stytta af honum var í síðasta mánuði gerð höfðinu styttri þar sem hún stóð á stalli sínum í norðurhluta Boston.

Þá var stytta af Kólumbusi, sem staðið hafði í San Fransisco, tekin niður fyrir nokkrum vikum vegna þess að gjörðir hans ættu það ekki skilið að vera hafðar í hávegum.

Undanfarið hafa fjölmargar styttur og minnismerki, bæði í Bandaríkjunum og annars staðar í heiminum, verið skemmd eða þeim steypt niður. Það er hluti mótmæla sem verið hafa víða um heim eftir að George Floyd var drepin af lögreglumanni í Minneapolis 25. maí. í kjölfarið hefur ofbeldi lögreglu í garð svarts fólks verið mótmælt, sem og kerfisbundnu kynþáttahatri í Bandaríkjunum. 

Segir öfgafulla vinstri menn ráðast að sögu landsins

Í ávarpi, sem hann hélt í fyrradag í tilefni af þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna sem var í gær, lagði Donald Trump Bandaríkjaforseti til að opna garð með minnismerkjum um merkustu einstaklingana í sögu Bandaríkjanna. Þar fór hann mikinn um kröfur mótmælenda um að fella styttur og minnismerki víða um landið og sagði bandaríska sögu liggja undir árásum öfgafullra vinstri sinnaðra fasista.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi