Klárlega gríðarlegur birkiþrastasveimur – pistill I

Mynd: Steinunn Sigurðardóttir / Einkasafn

Klárlega gríðarlegur birkiþrastasveimur – pistill I

05.07.2020 - 11:54

Höfundar

Steinunn Sigurðardótti, rithöfundur veltir fyrir sér nýyrðum í ljóðmáli nokkurra íslenskra skálda, til dæmis Jónasar Hallgrímssonar og Sigfúsar Daðasonar. Um leið beinir hún sjónum að ofnotkun valinkunnra orða.

Steinunn Sigurðardóttir skrifar:

Pistlarnir mínir tveir sem ég flyt nú í Tengivagninum um orð og orð í íslensku ljóðmáli og íslensku máli eru að grunni úr hátíðarfyrirlestri Jónasar Hallgrímssonar sem ég hélt þegar ég gegndi starfi í ritlist í hans nafni við Háskóla Íslands síðasta vetur.  

Á þeim ritkennsluvelli varð það fyrir mér í stærri stíl en ég hafði lagt upp með að stunda nýyrðarýni í ljóðmál íslenskra skálda, og varð úr í framhaldinu mikið nýyrðasukk og smíðar, ekki síst vegna góðra undirtekta nemendanna.  Þessi orðaferð hófst sakleysislega á því að ég hvatti þá til þess að hvessa augun almennt á orð sem gætu reynst þeim girnileg sem sérstök uppspretta ljóðs, eða einfaldlega til að nota í ljóði, jafnt líkleg sem ólíkleg orð. Og svo að nýta hið gjöfula internet til orðaveiða með öllum þeim orðabókum og ritmálsskrám sem þar er að finna.

Af öllum okkar góðu nýyrðasmiðum er Jónas sjálfur alltaf fremstur meðal jafningja, og sérstakt dálæti hef ég líka á nýyrðum Steins Steinarr. En á þessari orðaferð minni opinberaðist það fyrir mér mun skýrar en áður hversu stórtæk mörg fleiri af okkar öndvegisskáldum, fyrr og síðar, hafa verið á þessum vettvangi og varð einn hvatinn að því að ég vatt mér í þetta viðfangsefni.    

Orðasmíð er nokkuð sem hef sjálf lagt fyrir mig í ljóði og lausu máli og þess vegna kannski litið á þessa iðju sem sjálfsagða.  Og hefði varla trúað því hversu heillandi það er að þessi nýju íslensku ljóðorð sérstaklega, sem skáldin okkar fyrr og síðar hafa töfrað upp úr hattinum sínum, stór og smá, ábúðarmikil eða yfirlætislaus, stutt, löng, kuldaleg, ljúf, nafnorð jafnt sem lýsingarorð, samansúrruð, einföld, torræð, gagnsæ, allt þar á milli.    

Dæmin sem á eftir fara eru persónuleg, úr ljóðum sem ég kann, eftir skáld sem ég er handgengin. En ég vona að þessi slitur úr mínu ljóðlífi gætu orðið alvöru fræðafólki hvatning til þess að skoða þessa nýsköpun kerfisbundið með alvöru sjónauka og mælitækjum. 

Eitt af því allra gleðilegasta við nýyrðaskoðun í íslensku ljóðmáli, og það sem hvað mesta athygli vekur, er hversu mörg af þessum orðum líta út fyrir að hafa alltaf verið til, láta ekkert yfir sér, smeygja sér inn í íslensku orðahjörðina áreynslulaust og haga sér eins og hver önnur vel uppdregin skepna í hjörðinni. Þau rekast sem sagt vel í hópnum.  

Eitt af þessum fínu og vel þegnu orðum er sældarkjör hjá Vilborgu Dagbjartsdóttur, úr ljóðabókinni Kyndilmessu. Ljóðið heitir Erfiðir tímar:

Nóra litla, hvert ætli þú hafir svo sem getað farið? 
Jafnvel þótt þú hefðir tiplað yfir þessi ár 
sem eru á milli okkar 
biðu þín engin sældarkjör í húsi mínu. 
Þér að segja, síst er það betra annars staðar. 

Sældarkjör, ekki til svo ég hafi fundið. Hins vegar lifa góðu lífi orðin sældarlegur, sældarlíf. Einnig eru til vildarkjör, kostakjör, sultarkjör. Þannig vekur orðið sældarkjör hugrenningatengsl út um allar trissur. Mjög fín uppfinning sem nær ekki yfir neitt af þeim orðum sem fyrir voru. 

Annað ágætt orð sem Vilborg finnur upp, og lítur gráeðlilega út, er hversdagsgrár. Samhengið er „hversdagsgrár morgunn“ úr ljóðinu Dýrleif grætur.

Arnfríður Jónatansdóttir er merkilegt skáld sem sendi frá sér einu ljóðabókina sína 1958, Þröskuldur hússins er þjöl. Þetta hafa, vel á minnst, verið örlög alltof margra skrifandi kvenna  á Íslandi. Ein ljóðabók, kannski tvær, og svo búið.

Þeim mun gleðilegra er að bók Arnfríðar hefur nú gengið í endurnýjun lífdaganna hjá ungu og spræku bókaútgáfunni Unu. Hafi hún allrabestu þakkir fyrir. Og hér kemur fóðurbætir úr þessari bók á nýyrðagarðann.

Ljóð eftir Arnfríði sem heitir Þrá hefst svona:

Á breiðum tónsæ
byrþanið segl.
Myndlíf söngs og sagnar

Tónsær, það mundi ég kalla fínasta orð. „Byrþanið segl“ gæti sem best verið úr Hómerskviðum, eftir Sveinbjörn Egilsson en orðið byrþaninn finn ég ekki í orðabók.

Svo er það látlausa orðið myndlíf sem lítur út eins og sjálfsagt mál að það hafi alltaf verið til. Nú, ef ekki, að það hefði alltaf átt að vera til. Myndlíf, eitt af þessum látlausu sjálfsögðu yndisorðum sem skáldin hafa skapað.

Arnfríður hefur fleiri tóna á orðahörpustrengjum. Hér kemur krassandi og frumlegt orð, með gusti. Orðið reykspor, úr ljóðinu Þú vitjar mín. „Fer hann snuðrandi reyksporum.“ Svo hljóðar ein ljóðlínan. Vel líst mér á þetta orð reykspor og samsetningin snuðrandi reyksporum, ekki á allra skálda færi. Mjög frumleg og mynd sem maður sér einhvern veginn sterklega fyrir sér. 

Nú ætla ég stuttlega að skutla mér á heimavöll og blanda mínum eigin orðum í ný-ljóðmálið. Kveikjan er sú að verið var að þýða ljóðabókina mína Hugástir, svo ég þurfti að taka hana til handargagns. Best að bera hér niður, í borg lífs míns, Reykjavík. Ég fann sem sagt upp nokkur orð um þessa elsku borg. Það er jú þannig að þeim var ég verst er ég unni mest, og á það jafnt við um borgir og ástmenn. Í ljóðabálknum Brotnar borgir er að finna orðið hraglandaborg –og hún er meira að segja andvökuljós. Sú ljóðlína hljóðar svona: „Borg óbærilegrar birtu, andvökuljós.“ Og veslings Reykjavíkin fær á sig fleira, kófdrykkjuborgin – glerbrotanáman. Hún er þar að auki loftpressuborg. Þess má geta án frekari skýringa að ljóðið er orðið aldarfjórðungsgamalt. 

Áður en við komum að Jónasarorðum og Steinsorðum mætti minna á það sem Konráð Gíslason skrifaði um frjósemi íslenskrar tungu:

„Það er alkunnugt, hvað hægt er að búa til ný orð á íslensku, bæði samfellinga og allskonar nýgjörvinga. Og hvað er það sem heimspekingarnir þurfa mest á að halda, til að geta komið orðum að því sem þeir hugsa – er það ekki ný orð handa nýjum hugmyndum? Hvað er það annað, en þessi frjósemi málsins, sem íslenskan hefir til að bera meir en flest önnur mál.“

Nú skortir mig þekkingu og yfirsýn sem þyrfti til þess að vera viss um beint sannleiksgildi þess sem Konráð skrifar, þegar kemur að samanburði við önnur tungumál. Þessi algengu mál sem ég hef veður af, þýska, franska Norðurlandamál, enska, hafa sannarlega ekki sömu sort af frjósemi. En hér hefur þýska þá sérstöðu að hún getur aukið sitt nafnorðakyn viðstöðulaust, hægt að splæsa saman nafnorðum lige ud ad landevejen, samanber titilinn á skáldsögunni minni, Hjartastaður. Úr varð einfaldlega Herzort, hjá eðalþýðandanum Colettu Burling, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Orð sem hefur hvorki verið til á þýsku fyrr né síðar, en var tekið eins og víðkunnum Herzort.   

En þar til annað sannast ætla ég að halda mig við kenningu meistara Konráðs og hafa fyrir satt að íslenskt mál hafi þennan sérstaka eiginleika, umfram önnur tungumál sem við höfum veður af á byggðu bóli, að geta aukið kyn sitt með ýmsum hætti út um allar trissur, og þá ekki síst út um allar ljóðatrissur.  

Mig langar að beina sjónum að einu okkar frægasta ljóði, Sorg, eftir Jóhann Sigurjónsson, um Jónas Hallgrímsson:

Dregnar eru litmjúkar dauðarósir
á hrungjörn lauf í haustskógi.
svo voru þínir dagar
sjúkir en fagrir
þú óskabarn ógæfunnar.

Varla sæi ég fyrir mér þann smekk sem drægi í efa orðin litmjúkur eða dauðarósir, og samsetninguna litmjúkar dauðarósir. Þess má geta að Arnaldur sjálfur fékk augastað á orðinu dauðarósir og notaði sem titil í eina af sínum fyrstu sögum.

Þá kemur til skjalanna orðið hrungjarn. Þetta er orð sem ég las vitlaust, þangað til ég fór að tala um það við nemendur. Ég las hraungjörn, í staðinn fyrir hrungjörn, orð sem er auðvitað tært bull og við skulum flýta okkur að hrauna yfir það. Kannski er grafni hundurinn sá að ég viðurkenndi ekki orðið hrungjörn, vegna þess að mér þótti það ekki vel lukkað, hvorki fyrir né eftir bankahrunið. Hins vegar virðist ekki nokkurn tímann vera hægt að afgreiða með einu pennastriki, síst af öllu skáldskap á borð við þennan. Þegar orðið hrungjarn var farið að liggja þannig á mér að ég bar mig upp andvökuföl við ritstjóragersemina mína á Forlaginu, Sigríði Rögnvaldsdóttur og við töluðum um ljóðið og orðið, þá sagði hún það sem ég hafði verið um það bil að segja:  „Já, en það virkar.“ Það er nefnilega það, við getum eins og fyrri daginn talað okkur hás um einstök atriði en stóra spurningin er alltaf: hvað virkar – og ekki hvort það virki í teoríu heldur hvort það virki í praxís.