Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

ESA gefur grænt ljós á Ferðaábyrgðasjóð

05.07.2020 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: burst.shopify.com
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur gefið grænt ljós á Ferðaábyrgðasjóð. Lagabreyting til stofnunar sjóðsins var samþykkt á Alþingi á þriðjudag. Tilgangur sjóðsins er að auðvelda ferðaskrifstofum og skipuleggjendum pakkaferða að endurgreiða viðskiptavinum vegna ferða sem voru afpantaðar eða blásnar af vegna heimsfaraldursins.

Sjóðurinn verður í vörslu Ferðamálastofu sem einnig tekur ákvarðanir um greiðslur úr sjóðnum. Í lögunum segir að ef pakkaferð sem átti að vera farin á tímabilinu 12. mars til 31. júní 2020 er aflýst eða hún afpöntuð vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna og ferðamaður hefur ekki fengið endurgreiðslu vegna breytinganna, þá getur skipuleggjandi ferðarinnar sótt um lán til sjóðsins. Fjármagn sjóðsins er 4,5 milljarðar króna. Lánsfjárhæð fer eftir upphæð endurgreiðslunnar sem viðskiptavinir eiga inni. Ferðaskrifstofur sem hafa þegar endurgreitt viðskiptavinum geta einnig lagt fram umsókn í sjóðinn.

Í vor varð ljóst að ferðaáætlanir fjölmargra Íslendinga færu í uppnám vegna kórónuveirufaraldursins. Fjölmörgum pakkaferðum var aflýst eða þær afpantaðar af viðskiptavinum. Sumar ferðaskrifstofur áttu í miklum erfiðleikum með að endurgreiða ferðirnar.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir lagði fram frumvarp á Alþingi í apríl sem átti að heimila ferðaskrifstofum að gefa út inneign vegna pakkaferða í stað þess að endurgreiða þær. Frumvarpið náði ekki fram að ganga. Þórdís kynnti síðan frumvarp um Ferðaábyrgðasjóð um miðjan júní. 

Í tilkynnngu frá ESA segir að sjóðurinn og framkvæmd hans sé að öllu leyti í samræmi við EES-samninginn. Verið er að vinna að því að útfæra lögin með reglugerð og er samþykki ESA liður í undirbúningnum. 

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði í samtali við fréttastofu í júní að hann fagnaði frumvarpinu. Hann sagði að sumar ferðaskrifstofur ræðu lífróður um þessar mundir. Sjóðurinn myndi skipta sköpum fyrir þær. 

 

 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV