Brá fæti fyrir lögreglumann við skyldustörf

Lögreglumaður
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Lögreglumaður handleggsbrotnaði við störf í miðborg Reykjavíkur í nótt þegar vegfarandi brá fyrir hann fæti. Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir málið litið alvarlegum augum og að það verði kært.

Jóhann Karl segir málsatvik hafi verið þau að tveir lögreglumenn hafi hlaupið á eftir manni. Vegfarandi hafi brugðið fæti fyrir annan þeirra og hann dottið með þessum afleiðingum. Hann hafi verið handtekinn.

Jóhann Karl segist ekki vita til þess að ráðist hafi verið að lögreglumanni við störf með þessum hætti áður.  Aftur á móti gerist það alloft að lögregla verði fyrir áreitni í störfum sínum. 

„Við fáum alveg svona allskonar áreitni, fólk er að skipta sér af störfum okkar en ég man ekki eftir því að maður á harðahlaupum hafi verið felldur áður.“

Hvað finnst þér sem yfirmanni í lögreglunni um þetta? „Mér finnst þetta auðvitað algerlega ótækt. Lögreglan er þarna niðri í bæ að sinna skyldustörfum sínum, að menn skuli láta sér detta þetta í hug er auðvitað bara alveg galið.“

Verður málið kært? „Já. þetta er brot gegn opinberum starfsmanni þannig að við væntanlega keyrum þetta alla leið eins og hægt er,“ segir Jóhann Karl.

 

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi