Þurftu aðstoð lögreglu vegna ölvaðs strætófarþega

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru fjölbreytt að vanda í gærkvöld og í nótt. Meðal þeirra voru þjófnaðarmál, grunur um akstur undir áhrifum og þá þurfti lögregla að veita aðstoð við að vísa ölvuðum manni út úr strætisvagni.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að þó nokkur erill hafi verið og um 88 mál bókuð á þessum tíma.

Rétt fyrir klukkan sex í gær fékk lögregla tilkynningu um mann sem hafði stolið síma úr afgreiðslu fyrirtækis í miðborg Reykjavíkur. Starfsmenn eltu hann uppi og er lögregla kom á vettvang kom í ljós að hann var með aðra muni í vörslu sinni sem var talið þýfi. 

Á tíunda tímanum var lögregla send að veitingastað í miðborginni vegna ölvaðs manns. Við komu lögreglu reyndi hann að komast undan, en hafði ekki erindi sem erfiði og var handtekinn og vistaður í fangaklefa sökum ástands og fyrir að hafa ekki farið að fyrirmælum lögreglu. Um klukkustund síðar fékk lögregla tilkynningu um mann í annarlegu ástandi sem var grunaður um þjófnað úr verslun í miðborginni. Hann var handtekinn og streittist á móti og við það kom í ljós að hann var með hníf í buxnavasa.

Nokkur þjófnaðarmál til viðbótar komu til kasta lögreglu; meðal annars var tilkynnt um þjófnað á eigum gests á veitingastað í miðborginni og um tilraun til innbrots í gegnum svalahurð á heimili.

Rétt  fyrir miðnætti fékk lögregla tilkynningu um mann með hníf við skemmtistað í miðborginni. Hann hafði veist að öðrum manni, en reyndi svo að komast undan en var yfirbugaður af lögreglumönnum sem beittu varnarúða.

Þá stöðvaði lögregla þrjá ökumenn vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi