Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Það var bara unnið, drukkið og djammað“

Mynd:  / 

„Það var bara unnið, drukkið og djammað“

04.07.2020 - 09:45

Höfundar

„Þetta er átta þátta sería sem heitir Verbúðin og gerist frá '83 til '91, þegar kvótakerfið er sett á og svo framsal kvótans gefið frjálst,“ segir Björn Hlynur Haraldsson einn leikstjóri Verbúðarinnar, sjónvarpsþáttar sem leikhópurinn Vesturport framleiðir í samstarfi við RÚV.

„Þetta er um vinahjón utan af landi sem fara út í að braska með gamlan togara. Þau fá kvóta, og svo aðeins meira, og aðeins meira og verða eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi,“ segir Björn Hlynur. Mörgum ímyndum úr íslenskri poppmenningu níunda áratugarins bregður fyrir í þáttunum, til að mynda verður atriði úr spjallþætti Hemma Gunn sett á svið sem mun örugglega hræra í þeim sem eru hallir undir fortíðarþrá. „Ég held það sé mikið í Íslendingum, við erum mjög nostalgískt fólk. Sérstaklega þessi tími í 80's, það var ekkert til hérna, það var allt eins og það áttu allir það sama. Það er stundum eins og einhver hafi komið með gám heim og allir hafi keypt það, eins og fótanuddtækin.“

Mynd með færslu
 Mynd:

Björn segir að mikið hafi breyst á þessu tímabili og það sé dálítið eins og persóna út af fyrir sig. „Eins og búningarnir, kallast þetta ekki normcore í dag? Einn leikarinn er búinn að vera með sítt að aftan klippingu og flestum í kringum hann finnst hann alveg fáránlegur, nema tvítugir krakkar segja við hann, „djöfull ertu flottur maður“.“ Sagan af tilurð kvótakerfisins hafði mikil áhrif á íslenskt þjóðfélag og Björn segir að hún sé ein af stóru sögunum í nýliðinni fortíð okkar. „Við rannsökum hvað gerðist og hvernig þetta gerðist. En það er ekki okkar að segja þetta með vinstri listamannaslagsíðu. Við erum bara að leggja þetta á borðið og segja, svona var þetta.“ Þið eruð ekki að leggja neinn dóm á þetta? „Ég held að listamenn ættu aldrei að gera það, þeir eiga bara að velta upp spurningum fyrir áhorfendur til að svara. Mér finnst ekki gaman þegar það er verið að moka ofan í mann skoðunum.“

Mynd með færslu
 Mynd:

Sagan í Verbúðinni er sögð út frá venjulega fólku sem tók af skarið og komst í álnir. „En þetta er líka saga um græðgi og hvað við ráðum stundum ekki við hvað við fáum upp í hendurnar. Þetta er ein af þessum stóru sögum okkar. En það er ekki þar með sagt, þótt þetta sé pólitísk saga, að það þurfi að segja hana á leiðinlegan hátt.“ Verbúðin sjálf ,þar sem fiskverkafólk gisti margt saman í herbergi með kojum, hafi til dæmis verið mikill dýragarður og fyllerí tíð. „Fólk hefur góðar minningar frá þessum tímum, þetta var svona rokk og ról. Það var bara unnið, drukkið og djammað og í því er viss orka sem okkur finnst gaman að hafa í þessum áttum. Það að „við ætlum bara að massa þetta,“ sem er svona voða íslenskt.“

Mynd með færslu
 Mynd:

Hugmyndin að þáttunum kviknaði fyrir átta árum en tökur standa nú yfir og ráðgert er að frumsýna þættina snemma á næsta ári. „Þetta verður sýnt út um allan heim. Maður finnur það á þessum streymisveitum að fólk er að horfa á gamlar íslenskar seríur sem maður man varla eftir að hafa leikið í. Ég fór á Pool-stað í Bristol og þar spyr mig einhver, „Hey, you were in the Lava Field, I saw it on Netflix man, I loved it.“ Þá var þetta eitthvað RÚV production sem við gerðum fyrir löngu síðan,“ segir Björn og á við spennuþættina Hraunið sem RÚV sýndi árið 2014 og Netflix keypti 2016, fyrsta íslenska efnið sem var sýnt á risastreymisveitunni.

Atli Már Steinarsson ræddi við Björn Hlyn Haraldsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Tökur hafnar á spennuþáttum um kvótakerfið

Sjónvarp

Tökur hafnar á spennuþáttum um kvótakerfið