Líkfundur í Haffjarðardal

04.07.2020 - 15:58
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg - Aðsend mynd
Björgunarsveitir fundu lík í Haffjarðardal um hádegisbil í dag. Lögreglan á Vesturlandi segir það vera af karlmanni á sextugsaldri sem saknað hefur verið síðan 30. desember í fyrra. Jón S. Ólason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, segir að mannsins hafi verið leitað með reglulegu millibili síðan þá. Hefði leitin ekki borið árangur í dag, hefði hugsanlega ekki verið leitað oftar.

„Það lítur út fyrir að við höfum fundið manninn sem týnist í lok síðasta árs,“ segir Jón. Á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi segir að um sé að ræða Andris Kalvans, Letta sem búsettur var hér á landi. Ekkert bendi til þess að neitt saknæmt hafi átt sér stað.

Andris fannst um 3 kílómetrum frá þeim stað sem bíll hans fannst. Að sögn Jóns var lítið hægt að leita á svæðinu vegna snjóa framan af ári. 

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að um 100 björgunarsveitarmenn víðs vegar að hafi tekið þátt í leitinni. Kjöraðstæður hafi verið til leitar í dag og hófst hún klukkan níu í morgun, en hún hafði verið skipulögð undanfarna daga í samstarfi aðgerðastjórnar björgunarsveita á Vesturlandi og lögreglunnar á svæðinu. 

„Það er búið að leita mjög mikið á þessu svæði, björgunarsveitarmenn hafa farið reglulega þarna uppeftir og við áttum von á að sjá vísbendingar þegar snjóa leysti,“ segir Davíð.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi