Krefjast sex ára fangelsis vegna ummæla um hryðjuverk

04.07.2020 - 03:38
In this photo provided by the Investigative Committee of Russia, emergency service cars are parked near an FSB office, left, in the city of Akhangelsk, in northern Russia, Wednesday, Oct. 31, 2018. The local governor says one person has been killed and
 Mynd: Rússneska lögreglan - AP
Rússneskir saksóknarar krefjast þess að blaðamaðurinn Svetlana Prokopyeva verði dæmd í sex ára fangelsi. Hún er sökuð um að hafa réttlætt hryðjuverk með fréttaflutningi sínum af sjálfsmorðsárás á skrifstofu rússnesku leyniþjónustunnar FSB árið 2018.

Prokopyeva vinnur fyrir útvarpsstöðina Radio Free Europe í Rússlandi. Hún býr í borginni Pskov í norðvesturhluta Rússlands, nærri landamærunum að Eistlandi. Dómsmálið tengist sjálfsmorðsárás 17 ára gamals drengs, sem sprengdi sig í anddyri skrifstofu FSB í borginni Arkhangelsk í norðanverðu Rússlandi. Þrír leyniþjónustumenn særðust í árásinni. Prokopyeva tjáði sig um málið á útvarpsstöðinni Echo of Moscow í Pskov. Þar sagði hún sjálfsmorðsárásina tengjast pólitísku landslagi Rússlands undir stjórn Vladimírs Pútín. 

Tölvur haldlagðar á heimili hennar

Um hálfu ári eftir að hún tjáði sig um málið brutust vopnaðir sérsveitarmenn lögreglunnar inn í íbúð hennar og lögðu hald á tölvur, hefur AFP fréttastofan eftir Prokopyevu. Hún var einnig sett á lista rússneskra yfirvalda yfir hryðjuverka- og öfgamenn. Prokopyeva sagði fyrir dómi að hún væri ekki hrædd við að gagnrýna stjórnvöld. Stjórn landsins hafi endað í höndum tortrygginna og illra manna sem séu ógn við öryggi almennings. 

Segja ásakanirnar pólitískar

Vinnuveitendur Prokopyevu segja hana hafa gert andstöðuna við það sem hún er sökuð um. Hún hafi einfaldlega verið að leita skýringa á harmleik. Ásakanirnar séu af pólitísku bergi brotnar og til þess gerðar að þagga niður í gagnrýni hennar. 

Búist er við því að dómur falli í málinu á mánudag.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi