Fyrsta ákæran á grundvelli öryggislaga í Hong Kong

04.07.2020 - 06:57
epa08520698 Police officers walk past a makeshift barricade set on fire by protesters during a rally against the national security law in Hong Kong, China, 01 July 2020. Chinese President Xi Jinping has signed into law the national security legislation Beijing has tailor-made for Hong Kong, prohibiting acts of secession, subversion, terrorism and collusion with foreign forces to endanger national security.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
23 ára karlmaður var sá fyrsti til að verða ákærður á grundvelli nýju öryggislaganna í Hong Kong. Al Jazeera greinir frá. Hann er ákærður fyrir að hvetja til aðskilnaðar og hryðjuverk. Tong Ying-kit ók mótorhjóli sínu á hóp lögreglu á mótmælasamkomu á miðvikudag.

Hann ók á nokkra lögreglumenn og féll svo sjálfur af hjólinu áður en hann var handtekinn. Hann var sendur á sjúkrahús, og ákærður innan sólarhring síðar vegna áletrunar á fána sem hann hafði með sér á hjólinu. Þar stóð „Frelsið Hong Kong, bylting vorra tíma," og stangast það á við nýju lögin varðandi aðskilnað og uppreisnaráróður. Áletrunina má sjá víða í Hong Kong, á veggspjöldum, bolum og á miðum sem búið er að hengja á veggi í héraðinu.

Lögin tóku gildi 1. júlí og er að sögn kínverskra stjórnvalda ætlað að sporna við óeirðum og hryðjuverkum í Hong Kong. Hávær mótmæli hafa verið mánuðum saman í héraðinu þar sem lýðræðissinnar krefjast aukinna sjálfstjórnarréttinda. Bretar færðu Kínverjum héraðið aftur árið 1997, gegn því að þar ríkti meira frelsi og íbúar Hong Kong yrði sjálfsstjórnarhérað til 2047.

Bretar eru meðal þeirra sem gagnrýna lögin af hörku og segja þau grafa undan sjálfstæði dómstóla í héraðinu. Lögmannasamtök Hong Kong taka undir gagnrýnina, sem og Evrópusambandið og Bandaríkin.

Nýr öryggisstjóri var skipaður yfir Hong Kong í vikunni. Sá heitir Zheng Yanxiong, er á sextugsaldri, og hafði sig mikið í frammi við að kveða niður mótmæli þorpsbúa í suðurhluta Kína sem kröfðust yfirráðaréttar yfir landi sínu árið 2011. Hann gegndi síðast formennsku Kommúnistaflokksins í Guangdong-héraði, nágrannahéraði Hong Kong.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi