Formúla 1 hefst formlega í dag

epa08386152 (FILE) - (L-R) Monaco's Formula One driver Charles Leclerc of Scuderia Ferrari, British Formula One driver Lewis Hamilton of Mercedes AMG GP and Dutch Formula One driver Max Verstappen of Aston Martin Red Bull Racing in action during the qualifying session of the Austrian Formula One GP at the Red Bull Ring circuit in Spielberg, Austria, 29 June 2019  (re-issued 27 April 2020). Formula 1 Group CEO Chase Carey posted a statement on the Formula 1 website on 27 April 2020 saying that the series is targeting to start the season by the beginning of July with the Austrian Grand Prix in Spielberg on 3-5 July being the first race.  EPA-EFE/CHRISTIAN BRUNA / POOL
 Mynd: EPA

Formúla 1 hefst formlega í dag

04.07.2020 - 11:00
Nýtt tímabil í Formúlu 1-kappakstrinum hefst formlega í dag er tímataka fer fram í fyrri Austurríkiskappakstri sumarsins. Keppni fer þá fram á morgun.

Tímabilið í Formúlunni átti upphaflega að hefjast í Ástralíu í mars en kórónuveirufaraldurinn hefur sett strik í reikninginn. Sjö keppnum hefur verið aflýst og níu frestað ótímabundið.

Sem stendur eru því aðeins átta keppnir á áætlun í sex löndum og allar í Evrópu. Keppt verður í Austurríki um helgina og aftur þá næstu. Þetta er í fyrsta skipti frá árinu 1966 sem fyrsta mót ársins í Formúlunni fer fram í Evrópu.

Í kjölfar keppnanna í Austurríki fer Ungverjalandskappaksturinn fram 19. júlí áður en tvær keppnir verða á Silverstone-brautinni í Bretlandi fyrstu tvær helgarnar í ágúst.

Við taka þá keppnir á Spáni, í Belgíu og á Ítalíu þar sem áttunda og síðasta keppnin sem er á áætlun sem stendur fer fram 6. september. Vonir standa til um að ástand vegna veirunnar hafi lagast þegar að því kemur og fleiri keppnir verði komnar formlega á dagskrá í kjölfarið.

Lewis Hamilton er ríkjandi heimsmeistari í Formúlunni en hann hefur fagnað sigri fimm sinnum á síðustu sex árum, þar af síðustu þrjú ár í röð. Lið hans Mercedes hefur þá unnið keppni bílasmiðja sex ár í röð.

Hamilton þykir líklegur til afreka um helgina en hann hefur keyrt manna best á æfingum ökuþóra í brautinni í vikunni. Pressa er á liði RedBull sem vill eflaust ná góðum árangri á heimavelli sínum í Austurríki en liðið er það síðasta til að eiga heimsmeistara, árið 2013, fyrir yfirburði Mercedes undanfarin ár.

Ökuþórar voru við lokaæfingar á brautinni í morgun en tímataka hefst klukkan 13:00 í dag. Tímatakan ákvarðar hvar ökuþórar verða í ráslínu í kappakstri morgundagins, því fljótari sem menn eru í mark, þeim mun framar eru þeir í ráslínu.