Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Enn skelfur jörð við Eyjafjörð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jarðskjálftahrina við mynni Eyjafjarðar, sem hófst 19. júní, stendur enn. Frá upphafi hafa mælst þar yfir 9.000 skjálftar, frá miðnætti hafa mælst 50 skjálftar, allir eru þeir minni en 3 að stærð og engar tilkynningar hafa borist frá fólki um að þeir hafi fundist. Einar Bessi Gestsson náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að í gær hafi verið töluverð virkni. Óvissustig almannavarna, sem lýst var yfir á svæðinu 20. júní, er enn enn í gildi.

„Í gær mældust um 700 skjálftar á svæðinu. Virkni hefur örlítið minnkað miðað við síðustu daga. Að það hafi mælst 50 skjálftar frá miðnætti þýðir að þetta hefur róast aðeins,“ segir Einar Bessi. „En það þýðir ekki að hrinan er búin. Skjálftahrinan getur komið í lotum og virknin dottið niður á milli.“ 

Skjálftarnir eiga upptök sín á Tjörnesbrotabeltinu. Samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofu Íslands er það annað tveggja þverbrotabelta hér á landi, en slík belti tengja rekhryggi og Tjörnesbrotabeltið tengir þannig suðurenda Kolbeinseyjarhryggjar við Norðurgosbeltið. Hrinan sem nú stendur yfir er öflugasta hrinan á þessu brotabelti í rúm 40 ár. Á fyrstu dögum hennar mældust þrír skjálftar að stærðinni 5-6.

Einar Bessi segir að stærsti skjálftinn, sem mælst hafi undanfarna daga hafi verið á fimmtudagskvöldið, 3,6 að stærð. „Til þess að skjálftarnir finnist utarlega í Eyjafirði þurfa þeir að vera yfir 3 að stærð.“