Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Aldrei fleiri í sóttvarnarhúsi

Farsóttarhúsið við Rauðarárstíg í Reykjavík
 Mynd: Þór Ægisson
Ferðamaður sem kom til landsins með flugi Wizz Air frá Vínarborg í Austurríki á fimmtudag og greindist með virkt smit hefst nú við nú í Sóttvarnarhúsi.

Nú dvelja þar tuttugufimm manns að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar forstöðumanns Sóttvarnarhúss. Tveir eru sýktir, aðrir eru í sóttkví en aldrei hafa fleiri dvalið þar samtímis.

Farþegar sem sátu næst farþeganum frá Vín eru í sóttkví á eigin heimilum. Að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis gilda nú þær reglur að flugfarþegar sem nota andlitsgrímur þurfa ekki í sóttkví nema setið hafi verið næst þeim smitaða. Farþegar í tveimur röðum fyrir framan og aftan eru upplýstir um smit.

Almennt er miðað við að fólk fari í tveggja vikna sóttkví en hælisleitendur og fólk á flótta fara í skimun fimm til sjö dögum eftir þá fyrstu. Sé fólkið einkennalaust þá fer það í búsetuúrræði á vegum Útlendingastofnunar.

Gylfi Þór Þorsteinsson hvetur almenning til að fara að öllu með gát, þvo sér um hendur, nota spritt og gæta að fjarlægðamörkum. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir tekur undir það og segir jafnframt að fólk í áhættuhópum eða með undirliggjandi sjúkdóma þurfi ekki á sjálfskipaðri sóttkví að halda, gæti það að þessum öryggisatriðum.