Vona að betri jarðtenging hafi góð áhrif á sjúklinga

Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson / RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Nærri 100 metra djúp hola var boruð við Sjúkrahúsið á Akureyri fyrir skömmu til þess að leiða út svokallaða flökkustrauma í rafkerfi hússins. Vonast er til að það hafi góð áhrif á sjúklinga og starfsfólk.

Velunnarar sjúkrahússins tóku sig saman og gáfu framkvæmdina, en kostnaður hleypur á milljónum.

„Þeir eru búnir að bora hér 89 metra holu ofan í jörðina þar sem þeir setja ellefu strengi niður, koparstrengi, sem eru 120 kvaðröt hvert,“ segir Einar S. Bjarnason, rafvirkjameistari Sjúkrahússins á Akureyri.

Strengirnir eru bundnir öllum kerfum hússins, allt frá vatnsinntaki til loftræstingar, og eru svo tengdir ofan í þetta svokallaða djúpskaut.

„Þetta á að vera þess valdandi að við erum með hreinna kerfið í straumunum um húsið og svokallaðir flökkustraumar eru að hreinsast og síast í burtu,“ segir Einar.

Áhrifin á fólk ekki að fullu rannsökuð

Einar segir að þessir flökkustraumar myndist oft í stórum húsum þar sem fjölbreytt rafmagnstæki eru mikið notuð. Þar geti myndast yfirtíðni sem hafi áhrif á allt rafkerfið, en ekki er að fullu rannsakað hvaða áhrif hún hefur á fólk. Jarðtengingin á að losa út þessa yfirtíðni.

Það er vonast til að þetta hafi góð áhrif á sjúklingana?

„Já. Ég hef haft verulegar áhyggjur hvað við erum lítið með jarðskaut á Ísland. Það sem ég segi er að svona stofnun má ekki vera án öflugs skauts,“ segir Brynjólfur Sverrisson, velgjörðarmaður Sjúkrahússins.

Finnur að kerfi spítalans er hreinna

Brynjólfur segir að meira plast í tengingum húsa nú til dags skapi oft vandamál. Hann hefur unnið að viðlíka jarðtengingum á fleiri stöðum og meðal annars hafi nyt í kúm tekið við sér eftir að fjós var jarðtengt á þennan hátt. Hann vann að því í fjögur ár að gera þetta að veruleika við sjúkrahúsið. 

Einar segist sjálfur finna mun eftir jarðtenginguna.

„Ég verð alveg var við það að kerfi spítalans er hreinna. Ég veit að þarna eru margir búnir að lýsa ánægju með þetta og finna mun, en hvernig það virkar til lengdar verður bara að koma í ljós,“ segir Einar.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi