Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Verði liður í að Ísland nái loftslagsmarkmiðum sínum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson
Stefnt er að því að draga úr losun frá sjávarútvegi og auka eftirspurn eftir heilnæmum íslenskum fiski með samstarfi stjórnvalda og sjávarútvegsfyrirtækja. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem stjórnvöld og fulltrúar sjávarútvegsfyrirtækja undirrituðu i morgun við ráðherrabústaðinn.

Greint er frá því á vef stjórnarráðsins að fjármálaráðherra hafi skipað starfshóp sem mun vinna með fulltrúum sjávarútvegsins að tillögum til að draga úr losun og auka kolefnisbindingu.

Í aðgerðaáætlun stjórnvalda er stefnt að því að samdráttur í losun innan sjávarútvegsins verði um 50-60% árið 2030 miðað við árið 2005 og er yfirlýsingunni ætlað að vera liður í að Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsmálum.

Ólafur Marteinsson, formaður SFS, sagði við undirritunina að það væru enn umtalsverð tækifæri til að gera betur.

„Við erum öll hluti af vandanum og því verðum við öll að vera hluti af lausninni,“ er haft eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra í fréttatilkynningu. „Þær nauðsynlegu breytingar sem verður að gera í loftslagsmálum á næstu árum verða ekki að veruleika nema við tökum höndum saman; stjórnvöld, atvinnulíf og almenningur.“

Starfshóp ráðherra hefur verið falið að vinna tillögur að umfangi samdráttar í losun frá sjávarútvegi til ársins 2030, tillögur um innleiðingu fjárhagslegra hvata m.a. vegna fjárfestinga í búnaði og kerfum, tillögur um hvernig megi auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í sjávarútvegi og tillögur varðandi íblöndun lífeldsneytis og fýsileika þess í rekstrarlega tilliti.