Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Unnið á grundvelli sáttar ekki sundrungar

Mynd með færslu
 Mynd: jón þór víglundsson - RÚV
Frumvarpsdrögin að breytingu á stjórnarskrá sem nú eru til kynningar á samráðsgáttinni eru lagatæknilega séð langt komin. Þetta segir  Skúli Magnússon héraðsdómari og dósent sem var fenginn til að semja frumvarpið í samráði við formenn flokkanna.

Skúli, sem hefur komið að vinnu við gerð stjórnarskrár um árabil, segir eftir að koma í ljós hvort að næg sátt náist um málið á þingi. 

„Lagatæknilega séð er það langt komið, þannig að það er tækt til að koma í umsögn almennings,“ segir hann. Það sé hins vegar annarra að tjá sig um pólitíska stöðu málsins.

„Við vitum að á síðustu árum hafa tillögur um breytingar stjórnarskrá strandað fyrst og fremst á pólitískri sundrung, eða skorti á samstöðu,“ segir hann. 

Að þessu sinni var valin sú leið að láta formenn allra flokka á þingi koma að gerð frumvarpsins. „Þannig að það er ljóst að það er verið að reyna að vinna frumvarpið á grundvelli sáttar en ekki sundrungar, en hver niðurstaðan verður það er ekki mitt að segja.“

„Ekki minn óskalisti“

Frumvarpið beri þess líka merki að vera málamiðlun.

„Þarna er reynt að finna flöt sem flestir geta sætt sig við, þannig að þetta er ekki óskalisti held ég eins eða neins, þetta er að minnsta kosti ekki minn óskalisti,“ segir Skúli.

Með frumvarpinu sé ekki verið að hreyfa mikið við grundvallaratriðum eða þeim hlutum stjórnarskrárinnar sem deilt hefur verið um.

Að sögn Skúla má skipta tillögunum í þrennt. Í fyrsta lagi séu afgerandi breytingar og þar beri væntanlega hæst í hugum fólks breytingar á kjörtímabili forseta .„Þarna mætti einnig nefna ákvæðið um ráðherraábyrgð og landsdóm.“

Í öðru lagi sé um að ræða tillögur um hógværar breytingar þar sem að meginstefnu sé verið að lögfesta gildandi rétt, en stíga um leið skref í umbóta átt. „Þarna mundi ég nefna ákvæðið um ríkisstjórn og ákvæðið um skipun embættismanna.“

Í þriðja lagi sé svo um að ræða ákvæði sem fela í sér lögfestingu á gildandi rétti, án þess verið sé að breyta nokkru. „Auðvitað er það þó þannig að lögfesting óskráðra reglna getur leitt til einhverra breytinga sem ekki alltaf eru fyrirsjáanlegar.“