Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rýmdu hús HD verks vegna ófullnægjandi brunavarna

03.07.2020 - 06:18
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins lét fyrir þremur vikum rýma Dalveg 24 vegna ófullnægjandi brunavarna. Húsið er í eigu sama fyrirtækis og Bræðraborgarstígur 1 sem brann fyrir viku. Þrír létust þá í eldsvoðanum.

Eigandi Bræðraborgarstígs 1 er félagið HD verk. Skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður þess er Kristinn Jón Gíslason. Fréttastofa hefur ekki náð af honum tali, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.  HD verk á einnig húsið við hlið hússins sem brann, Bræðraborgarstíg 3. Þar eru 134 skráðir með lögheimili, þar af 3 Íslendingar. Húsinu er skipt í þrjár íbúðir sem eru á bilinu 38 upp í 69 fermetra. HD verk er skráð fyrir fleiri eignum á höfuðborgarsvæðinu. Á Dalvegi 24 og 26 er atvinnuhúsnæði þar sem verkamenn hafa búið. Þann 9. júní fóru slökkvilið, lögregla, starfs­menn Vinnu­eftir­litsins og ríkis­skatt­stjóra auk byggingar­full­trúa Kópavogs þangað og gerðu alvarlegar athugasemdir við aðbúnað og eldvarnir.  Þeir sem bjuggu á Dalvegi 24 fluttu yfir í Hjallabrekku 1 í Kópavogi, sem er einnig í eigu HD verks.   Í svari frá Kópavogsbæ vegna málsins segir að slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafi gert öryggisúttekt þar ásamt byggingarfulltrúa bæjarins þann 19. júní síðastliðinn.  Í úttektinni eru gerðar ýmsar athugasemdir um brunavarnir í Hjallabrekku 1 . HD verk á einnig húsnæði á Kársnesbraut 96A og þar búa einnig erlendir verkamenn. Þar var til langs tíma brauðgerð auk þess sem mjólkurvinnsla var starfrækt í húsinu.  Engin skoðun hefur farið fram á því húsnæði.

HD Verk er í eigu félagsins H2o ehf sem er að fullu í eigu Kristins Jóns Gíslasonar.  Hann er bæði skráður eigandi og framkvæmdastjóri þess félags. Hann átti veitingastaði á borð við Rizzo og UNO. Samkvæmt ársreikningi H2o ehf frá því seinasta haust námu leigutekjur félagsins árið 2018 rúmum 14 milljónum króna.