Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Myndbirting af börnum var gegn samþykki foreldra

03.07.2020 - 09:41
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu í vikunni eftir frumkvæðisathugun að myndbirting Arion banka á ljósmyndum af liðum í Arion banka-mótinu í fótbolta barna í fyrra hafi verið gegn samþykki foreldra og forráðamanna. Er það niðurstaða Persónuverndar vegna þess að lágmarksfræðslu hafi verið ábótavant.

Persónuvernd birti ákvörðunina á heimasíðu sinni 30. júní.

Börn eigi að njóta sérstakrar verndar

Persónuvernd vitnar í formálsorð reglugerðar ESB þar sem fram kemur að persónuupplýsingar barna eigi að njóta sérstakrar verndar, þar sem þau kunni að vera síður meðvituð um áhættu, afleiðingar og réttindi sín í tengslum við vinnslu þeirra. Þessi sérstaka vernd eigi einkum að eiga við um notkun persónuupplýsinga barna í markaðssetningarskyni. 

Arion banki taldi myndbirtinguna heimila á grundvelli samþykkis foreldra og forráðamanna og að myndbirtingin væri samkævmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sem og lögmætra hagsmuna. Persónuvernd telur að Arion banki eigi ekki lögvarða hagsmuni af myndbirtingunni.

Árétta tilmæli um að nota ekki samfélagsmiðla til að miðla persónuupplýsingum

Í kjölfarið árétti Persónuvernd tilmæli sín frá 2018 til allra þeirra sem koma að starfi með börnum vegna notkunar samfélagsmiðla við birtingu persónuupplýsinga um börn, meðal annars myndir. 

Þeir sem koma að starfi með börnum, meðal annars skólar og íþróttafélög, eiga ekki að nota Facebook eða sambærilega miðla sem samskiptamiðla fyrir miðlun persónuupplýsinga um ólögráða börn, hvort heldur sem um almennar eða viðkvæmar persónuupplýsingar þeirra er að ræða.