Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Misbrestur í upplýsingagjöf flugturns og flugvélar

Mynd með færslu
 Mynd: Isavia
Isavia segir að það þurfi að vera á hreinu hvers konar aðflugi flugmenn beita. Vantað hafi upp á upplýsingaflæði milli flugturns og flugvélar þegar litlu munaði að flugvél brotlenti árið 2016. Flugmenn vilja sjá breytingar á tilkynningakerfi til flugmanna.

Þegar Boeing 757-200 þota Icelandair með 113 um borð kom inn til lendingar frá Glasgow í október 2016 var slökkt á tilteknum búnaði á jörðu niðri. Þaulreyndum flugstjóranum fannst sem vélin lækkaði ekki flugið og reyndi hann að bæta úr því, með þeim afleiðingum að flugvélin lækkaði flugið alltof hratt. Engin aðvörun um það barst frá flugumferðarstjórn. 
Bjarni Tryggvason er forstöðumaður flugturns Isavia í Keflavík.

„Það liggur ekki ljóst fyrir hvaða aðflugstegund er til staðar hjá mönnum, og það er sá þáttur sem er búið að vinna með hjá okkur.“

Þarf það ekki að liggja ljóst fyrir?

„Þær upplýsingar þurfa að liggja ljóst fyrir og við þurfum að vinna að því að betrumbæta þá þætti hjá okkur og höfum gert það síðan atvikið kom upp fyrir tæpum fjórum árum síðan,“ segir Bjarni.

Bjarni segir að flugturninn hafi aðeins getað fylgst með hæð flugvélarinnar með ratsjárbúnaði í því aðflugi sem hún var í. Sá búnaður gefi ekki sjálfvirkar viðvaranir um að flugvél sé í of lítilli hæð. Það sé eitt af því sem Isavia hafi verið gert að bæta úr.

Vilja skilvirkari upplýsingar til flugmanna

Ingvar Tryggvason, formaður öryggisnefndar Félags atvinnuflugmanna, segir að í þessu atviki hafi ýmsir þættir fléttast saman. Meðal þess sem valdi ruglingi sé hversu örar og miklar upplýsingar berast flugmönnum í gegnum skeytasendingakerfi, til að mynda í grennd við stóra flugvelli. 

„Vonandi kemst einhver hreyfing á það að það kerfi, þetta NOTAM  tilkynningakerfi til flugmanna verði skýrara og aðgengilegra.“

Hvernig þarf það að vera?  

Það þarf að vera auðlesanlegt og þau skeyti sem tilheyra hverjum flugvelli sé raðað í forgangsröðun eftir alvarleika og hvaða erindi þau eiga til flugmanna.“ segir Ingvar

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV