Leita aðstoðar hjá borginni meðan þeir bíða bóta

03.07.2020 - 17:43
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Töluvert er um að þeir sem bíða eftir að fá greiddar atvinnuleysisbætur leiti eftir fjárhagsstuðningi hjá Reykjavíkurborg. Þetta segir Dís Sigurgeirsdóttir, skrifstofustjóri og staðgengill sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar sagði í samtali við fréttastofu í morgun að ekki væri óalgengt að fólk biði í 6-8 vikur eftir bótum í almenna kerfinu, vegna þeirra miklu fjölgunar sem orðið hefur á atvinnuleysisskrá vegna kórónuveirunnar.

Biðtíminn er styttri hjá þeim sem eru á hlutabótaleiðinni, en um 260 manns hafa ekki fengið greiddar hlutabætur frá því í maí.

„Það þykir engum þetta leiðinlegra en okkur. Við höfum miklar áhyggjur af þeim sem þurfa að bíða svona lengi,“ segir Unnur.

Skiljanlegt sé að þeir sem ekki fá greiddar neinar tekjur séu í vanda eftir þennan tíma.

Greinilegur kippur í mars

Dís segir starfsfólk velferðarsviðs borgarinnar verða vart við að fleiri leiti þangað. „Við höfum merkt fjölgun umsókna,“ segir hún. „Það hefur verið aðeins stígandi frá áramótum, en svo í mars varð greinilegur kippur. Þá varð mikil fjölgun og sú þróun hefur bara haldið áfram.“ Aukning hafi haldið áfram í apríl og maí og starfsfólk velferðarsviðs gerir ráð fyrir að hún haldi áfram.

Á tímabilinu janúar til maí hafa 1.714 fengið fjárhagsaðstoð frá borginni. Á sama tíma í fyrra var fjöldinn 1.432.

Tölur fyrir júnímánuð eru enn ekki aðgengilegar, en fyrstu fimm mánuði þess árs hafa 407 hafa óskað eftir styrk eða láni á meðan þeir bíða svara frá Vinnumálastofnun varðandi bótarétt. Um helmingur umsóknanna, eða 203, bárust í maí. Af þeim hafa nú 71 verið samþykktar, 28 hefur verið synjað og 105 bíða samþykkis eða skortir gögn.

Dís segir marga þeirra sem sækja um aðstoðina nú eiga rétt á henni. „Meirihluti umsókna er samþykktur, en auðvitað eru alltaf einhverjir sem eiga ekki rétt.“

Spurð hvort þeir sem hafi samband við velferðarsvið séu í mikilli geðshræringu, segir hún flesta vera yfirvegaða. „En auðvitað eru alltaf einhverjir sem eiga mjög erfitt.“

Starfsfólk velferðarsvið er að hennar sögn í reglulegu sambandi við Vinnumálastofnun vegna umsókna. „Við reynum að fylgjast eins vel með og við getum,“ segir Dís.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi