Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Leigusalar þurfa að tryggja brunaöryggi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Taka þarf fastar á félagslegu undirboði á vinnumarkaði og húsnæðismálum erlends verkafólks að mati félagsmálaráðherra. Bruninn í vesturbæ Reykjavíkur í síðustu viku hafi verið skelfileg áminning um bágar aðstæður verkafólks. Karlmaður á sjötugsaldri sem handtekinn var vegna málsins fyrir viku síðan var úrskurðaður í áframhaldandi sjö daga gæsluvarðhald í morgun.

Til stóð að grípa til aðgerða í húsnæðismálum erlends verkafólks í samræmi við lífskjarasamninginn og var það meðal þeirra mála sem lögð voru til hliðar af hálfu ríkisvaldsins þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst. 
Tvöfalda á starfsmannahald í yfirstjórn slökkviliðs og bæta tækjakost. Ásmundir Einar Daðason,félagsmálaráðherra, segir það vel koma til greina að skylda leigusala til að tryggja brunavarnir í öllu húsnæði.

„Ef að leigusalar almennt get ekki farið að lögum í þessu landi, geta ekki tryggt það að þeir leigji út húsnæði sem uppfyllir lög og reglur þegar kemur að brunavörnum, þá verðum við að grípa til þess.“ segir Ásmundur.

 Húsnæðis og mannvirkjastofnun fundaði í vikunni með slökkviliði höfuðborgarsvæðisins ásamt byggingarfulltrúanum í Reykjavík. Þar var rætt að skráning leigusamninga væri mikilvægt skref og sömuleiðis samkeyrsla leiguskrár við lögheimilisskráningar. Einnig voru ræddar auknar heimildir til slökkviliða og byggingafulltrúa við eftirlit og aukið samstarf við tryggingafélög. Ásmundur segir að halda þurfi betur utan um þá leigusamninga þannig að hægt sé að takmarka fjölda leigjenda í hverju húsnæði. 

„Það er að ekki séu fleiri búsettir eða fleiri leigusamningar í húsnæði en það ber. Allt er þetta þannig að við þurfum að afla gagnanna til að vinna út frá þeim. Það er mjög erfitt að hafa eftirlit með einhverju þegar við höfum ekki skráninguna. Það er það sem þarf að gerast núna samhliða og þetta er áminning um að við þurfum að hraða þeirri vinnu og taka fastar á þeirri vinnu.“ segir Ásmundur.

Hann segir aðstæður sem blöstu við á Bræðraborgarstíg skelfilegar. 

„Það er algjörlega ljóst að við eigum að gera það sem við getum, bæði  framkvæmdavald og löggjafi. Það er mikilvægt að almenningur og atvinnurekendur og aðrireiga að taka þetta til sín.  Það á ekki að vera þannig að það þurfi svipu, það þurfi hart eftirlit, og viðurlög til að tryggja mannsæmandi aðbúnað“ segir Ásmundur.
 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV