
Kvennaathvarf opnað nyrðra í sumarlok
Athvarfið verður opnað sem tilraunaverkefni fram á næsta vor. Sigþrúður segist eiga von á að í ljós komi að full þörf sé fyrir framtíðarrekstur athvarfs á Akureyri.
„Okkur hefur lengi langað til að sinna landsbyggðinni betur og þetta er fyrsta skrefið í þá átt. Það var að vísu kvennaathvarf á Akureyri í árdaga Samtaka um kvennaathvarf á árunum 1983/84 held ég en þá kom á daginn að það voru ekki forsendur fyrir rekstri athvarfs þar á þeim tíma en það hefur svo sannarlega margt breyst síðan þá.“
Að sögn Sigþrúðar hafa samtökin nú gengið frá leigu á húsnæði og ráðningum starfsfólks. Hún segir bæjaryfirvöld á Akureyri og sveitarfélögin á svæðinu hafa verið jákvæð gagnvart verkefninu. Þá hafi verið gott samstarf við samtökin Bjarmahlíð og Aflið á Akureyri sem bæði koma að athvarfinu.
Jákvætt og mikið tilhlökkunarefni
„Fram að þessu hefur eina búsetuúrræðið fyrir konur sem eru að flýja ofbeldi heima hjá sér verið í Reykjavík. Það þrengir möguleika kvenna á landsbyggðinni til að sækja sér aðstoð. Svona um það bil 20% kvennanna sem koma í athvarfið hverju sinni eru konur utan af landi. Það er vissulega þannig að því lengra sem frá dregur athvarfinu hérna í Reykjavík því ólíklegri virðast konur til að koma. Og það er eðlilegt. Þannig að það er afskaplega jákvætt og mikið tilhlökkunarefni að geta fært þessa þjónustu út á land,“ segir Sigþrúður.