Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kaupendur notaðra bifreiða bera ábyrgð á tryggingum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚVBí - RÚV
Vátryggingar bifreiða eru tryggðar með lögveði samkvæmt lögum sem tóku gildi um áramót. Kaupandi notaðrar bifreiðar getur því borið ábyrgð á vangoldnum iðgjöldum fyrri eiganda í allt að tvö ár.

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna segir að það geti ekki gengið að kaupandi beri ábyrgð á skuldum fyrri eigenda bifreiðar.

Breki bendir á að lögveð komi ekki fram á veðbókarvottorði. Lögveð veitir heimild til nauðungarsölu án undangengins, dóms, sáttar eða fjárnáms. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að með þessu sé leitað fordæmis í lögum um brunatryggingar. Að sögn Breka vakti þetta ákvæði nýju laganna furðu fagfólks í bílgreinum.

Breki segir fá líkindi með bifreiðaviðskiptum og fasteignaviðskiptum sem séu mun viðameiri og fasteignasalar haldi eftir fjárhæðum til að mæta óvæntum útgjöldum. Slíkt hafi ekki verið tíðkað í bifreiðaviðskiptum.

Hann segir jafnframt að það sé engin leið fyrir kaupendur að verða sér úti um upplýsingar um hvort lögveð hvílir á bifreið. Einhver tryggingafélög hafi neitað að gefa upplýsingar um stöðu viðskiptavina bæði vegna trúnaðar og viðkvæmra persónurekjanlegra upplýsinga.

Þótt ekki séu almennt háar fjárhæðir í spilinu telur Breki galið að kaupandi þurfi að greiða skuldir fyrrverandi eiganda. Hann lýsir sérstökum áhyggjum vegna bílaleigubíla sem seldir eru á almennum markaði. Bílaleigur sem standi tæpt á tímum kórónuveirunnar gætu boðið bifreiðar til sölu sem lögbundin tryggingaiðgjöld hafi ekki verið greidd af.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV