Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gestir virtu ekki sóttvarnir og breyta þurfti mótinu

03.07.2020 - 22:25
Mynd: RÚV / Björgvin Kolbeinsson
Breyta þurfti skipulagi eins stærsta knattspyrnumóts sumarsins á Akureyri þar sem foreldrar og gestir virtu ekki hólfaskiptingu og sóttvarnir. Eftir á að hyggja segir mótsstjórinn það hafa verið mistök að takmarka ekki fjölda aðstandenda. Um 8000 manns eru á mótinu.

Fulltrúar KA, sem heldur mótið, segja það undirbúið og skipulagt í nánu samstarfi við KSÍ, Almannavarnir og Akureyrarbæ - en það hafi ekki dugað til. Reynslan eftir tvo fyrstu keppnisdagana varð til þess að breyta þurfti skipulagi mótsins. Það þurfti að fækka leikjum á KA-svæðinu og færa þá á Akureyrarvöll og dreifa mótinu þannig á stærra svæði.

Of margir sem virtu ekki svæðaskiptinguna

„Því miður urðum við varir við að það var of stór hluti, þó það hafi verið minnihlutinn, þá voru of margir einstaklingar sem voru ekki að virða þau skilrúm sem við höfðum og fóru á milli. Og við erum að reyna að bregðast við því.“ segir Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA.
„Hvernig getið þið tryggt það að fólk flakki ekki á milli eins og því sýnist?“
„Við erum með mjög augljóslega aðskilin svæði, þau eru mjög vel afmörkuð, við erum með gæslu á milli. Þannig að þeir sem vilja sjá hvar línan er, sjá það.“

,,Sumir vilja ekki láta stoppa sig og eru með dónaskap"

Og það gildi skýrar reglur um þessi svæði og enginn þurfi í raun að fara þar á milli. „Allir þínir leikir eru á sama svæði, öll þín þjónusta hvort sem það er salerni eða sjoppa er á þessu svæði þannig að það er enginn tilgangur að fara þarna á milli,“ segir Ágúst Stefánsson, starfsmaður mótsins.
„En það er nú ekkert mál að fara hérna á milli ef maður vill.“
„Já auðvitað biðlum við til fólks að virða það, við erum að reyna að loka af. Sumir vilja bara ekki láta stoppa sig og eru bara með dónaskap því miður.“

Telja KA almennt hafa staðið vel að málum

Halldór Orri, foreldri úr HK, segist ekki sjá að fólk sé almennt kærulaust. „Ekkert rosalega mikið. Og maður finnur að liðin eru að halda sér saman og það er ekkert verið að mingla milli liða. Ég held að foreldrahópurinn sé að reyna að passa sig.“ FH-ingurinn Ásdís Jóhannesdóttir tekur undir þetta. „Ég held að það hefði mátt auglýsa betur hvernig hólfaskiptingin er og hvar þú mátt ekki fara yfir og hafa gæsluna betri. Það hefði mátt bæta. Annars held ég það fari enginn viljandi á milli hólfa.“ Nikulás Sigfússon, úr Haukum, telur skipulagið í lagi. „Þeir eru að halda strákunum bara mjög vel aðskildum. Það er náttúrulega erfitt að vera ekki jafn mikið með krökkunum, maður er ekki leyfður uppi í skóla og svoleiðis. En ég er heilt yfir bara sáttur.“

Mistök að hafa ekki takmarkað fjölda aðstandenda

„Voru það mistök að takmarka ekki fjölda foreldra og aðstandenda með hverju liði?“
„Mistök og ekki mistök,“ segir Sævar. „Við fórum eftir þeim upplýsingum sem við höfðum og lágu fyrir þegar mótið fór af stað. En í dag, já sennilega mistök að hafa ekki takmarkað foreldra og forráðamenn að einhverju leiti. Ef við værum að fara viku aftur í tímann þá myndum við sennilega gera það í dag.“