„Allar helgar eru stórar ferðahelgar“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þétt umferð er á öllum leiðum út úr borginni. Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að umferð sé sérstaklega þung frá Ártúnsbrekku að nyrðri mörkum Mosfellsbæjar.

Guðbrandur segir að mikil umferð hafi verið út úr bænum allar helgar frá því um miðjan júní. „Allar helgar eru stórar ferðahelgar og við erum hættir að greina verslunarmannahelgina sem stærstu helgi sumarsins,“ segir hann. Guðbrandur segir að samkvæmt mælingum sem gerðar voru laust eftir hádegi í dag við Sandskeið sé umferð álíka þung og um verslunarmannahelgina í fyrra. 

Hann segir að mikið sé um vegaframkvæmdir í augnablikinu, til dæmis í Mosfellsbæ. Slíkt geti hægt á umferð. 

Lúðvík Kristinsson, sem einnig starfar hjá umferðardeildinni, segir að á mánudag og þriðjudag verði malbikunarframkvæmdir á Kjalarnesi. „Þá er hætt við einhverjum töfum,“ segir hann. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi