Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Zuckerberg segir auglýsendur verða fljóta að snúa aftur

Mynd með færslu
Mark Zuckerberg á ráðstefnu um Facebook í dag. Mynd: AP
Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook segir auglýsendur verða fljóta að snúa sér aftur að samfélagsmiðlinum.

Undanfarna daga hefur fjöldi stórfyrirtækja tilkynnt að þau muni ekki auglýsa á samfélagsmiðlum, að minnsta kosti ekki næsta mánuðinn, til að sýna andstöðu sína við því hve lítið sé gert til að bregðast við birtingu kynþáttafordóma og  hatursáróðurs án athugasemda.

Yfir 400 fyrirtæki hafa þegar tilkynnt þetta. Þeirra á meðal eru Lego, Microsoft, Coca Cola, Adidas og Starbucks,

Zuckerberg sýnir hins vegar engin merki um að láta undan. „Ég tel að allir þessi auglýsendur verði fljótir að koma til baka,“ segir BBC hann hafa sagt.

Facebook hefur verið sakað um að bregðast hægt og illa við kröfum um að hatursáróður sé fjarlægður.

Zuckerberg segir ekki standa til að breyta stefnu fyrirtækisins í flýti, vegna missis á litlum hluta af tekjum Facebook.

BBC segir Zuckerber hafa látið þessi orð falla á fundi með starfsmönnum síðasta föstudag og að þeim hafi síðar verið lekið á vefsíðuna Information.

Facebook hefur staðfest að rétt sé með farið. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins ætli hins vegar að funda með forsvarsmönnum Stop Hate for Profit, sem hafa skipulagt sniðgönguna. Það sýni með hve uppbyggilegum hætti Facebook ætli að taka á málinu.