Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Yfir 50 þúsund tilfelli í Bandaríkjunum í gær

02.07.2020 - 04:55
epa08518280 (L-R) Dr. Anthony Fauci, director of the National Institute for Allergy and Infectious Diseases, CDC Director Dr. Robert Redfield, Adm. Brett Giroir, director of the U.S. coronavirus diagnostic testing and FDA Commissioner Stephen Hahn, testify before the Senate Health, Education, Labor and Pensions (HELP) Committee on Capitol Hill in Washington, DC, USA, 30 June 2020. Fauci and other government health officials updated the Senate on how to safely get back to school and the workplace during the COVID-19 pandemic.  EPA-EFE/KEVIN DIETSCH / POOL
 Mynd: EPA-EFE - UPI POOL
Nýtt met var slegið í daglegum tilfellum kórónuveirunnar í Bandaríkjunum í gær þegar rúmlega 50 þúsund sýni reyndust jákvæð. Flest voru tilfellin í Texas, rúmlega átta þúsund, um 6.500 tilfelli greindust bæði í Flórída og Kaliforníu, og tæplega fimm þúsund í Arisóna.

Tilfellin eru farin að nálgast 2,8 milljónir, og verða líklega þrjár milljónir um eða eftir helgi ef fram heldur sem horfir.

Samkvæmt hagtöluvefnum Worldometers var einnig sett met í daglegum tilfellum á heimsvísu í gær. Nærri 197 þúsund tilfelli voru þá greind, en fyrra met var um 195.500 tilfelli 26. júní. 

Líkt og undanfarnar vikur fjölgar tilfellum hraðast í Bandaríkjunum og Brasilíu. Tilfellin nálgast nú eina og hálfa milljón í Brasilíu og yfir 60 þúsund eru látnir af völdum COVID-19 í landinu. Enn er sýnataka af skornum skammti þar syðra, þar sem um helmingur allra tekinna sýna hafa greinst jákvæð. Því er óttast að staðan sé mun verri en opinberar tölur gefa til kynna þar í landi.

Staðan slæm víðar í Suður-Ameríku

Faraldurinn er einnig á uppleið í Suður-Ameríkuríkjunum Perú og Síle. Þar hafa á milli 280 og 290 þúsund greinst með kórónuveirun. Miðað við höfðatölu hefur sýnataka verið talsvert öflugri þar en hjá nágrönnum þeirra í Brasilíu. 

Rúmlega 650 þúsund tilfelli hafa greinst í Rússlandi og í gær fóru þau yfir 600 þúsund á Indlandi. Indverjar eiga það sammerkt með Brasilíu að miðað við höfðatölu hefur sýnatöku verið ábótavant, og því erfitt að gera sér grein fyrir raunverulegum fjölda smita. 

Alls eru tilfellin í heiminum orðin 10,8 milljónir og nærri 519 þúsund látnir af völdum sjúkdómsins.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV