Trump fékk upplýsingar um verðlaunagreiðslur Rússa

epa06321985 Russian President Vladimir Putin (R) and US President Donald J. Trump (L) talk at the break of a leader's meeting at the 25th Asia-Pacific Economic Cooperation (APEC) summit in Da Nang, Vietnam, 11 November 2017. The APEC summit brings
 Mynd: EPA-EFE - Sputnik Pool
Á sama tíma og bandarískir embættismenn reyna að gera lítið úr fregnum af því að Rússar hafi heitið Talíbönum verðlaunum til höfuðs bandarískum hermönnum í Afganistan, birtir New York Times nýja grein um málið. Þar er sagt frá því að milliliðurinn sé fyrrverandi fíkinefnasmyglari, Rahmatullah Azizi að nafni.

Í grein Times segir að Azizi hafi tekið við peningum af mönnum í leyniþjónustu rússneska hersins og fært vígamönnum tengdum Talíbönum fyrir að drepa bandaríska hermenn í Afganistan. Þetta kveðst blaðið hafa eftir embættismönnum bæði í Bandaríkjunum og Afganistan. Eftir að vísbendingarnar leiddu bandarísku leyniþjónustuna að Azizi voru tugir aðstoðarmanna og fjölskyldumeðlima hans handteknir. Þetta var fyrir um hálfu ári síðan. Azizi fannst hvergi, og er talið að hann hafi flúið til Rússlands, þar sem hann hafði komið sér vel fyrir. Í einu heimila hans í Kabúl fannst um hálf milljón bandaríkjadala í reiðufé.

Talið að þetta hafi gengið í einhver ár

Samkvæmt Times hafa bandarískir og afganskir embættismenn talið árum saman að Rússar hafi unnið að því á bakvið tjöldin að grafa undan aðgerðum Bandaríkjahers í Afganistan. Það var þó aðeins nýlega sem greint var frá því að rússnesk leyniþjónusta hafi greitt verðlaunafé til höfuðs bandarískum hermönnum. Rússnesk stjórnvöld og Talíbanar þvertaka fyrir það.

Sjaldnast staðfestar upplýsingar

Eftir að hafa í fyrstu þrætt fyrir fregnirnar hafa bandarískir embættismenn viðurkennt að í vor hafi þetta komið fyrir í daglegum upplýsingum sem færðar eru forsetanum. Robert O'Brien, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, sagði í gær að starfsmaður leyniþjónustunnar sem hafi fært Trump upplýsingarnar þann dag hafi sleppt því að minnast á Rússa og verðlaunaféð, þar sem þær væru óstaðfestar. Upplýsingarnar var þó að finna í riti. 

Guardian hefur eftir sérfræðingum úr heimi leyniþjónustunnar að sjaldnast séu upplýsingar sem foresetanum eru færðar á þessum fundum staðfestar, heldur færðar honum og sagt hversu áreiðanlegar heimildir eru fyrir þeim. 

Sjálfur heldur Trump því enn fram að hann hafi aldrei fengið að vita af þessu, og vísar allri gagnrýni um aðgerðarleysi gegn Rússum á bug. Líkt og margt annað telur hann fréttirnar vera blekkingarleik af hálfu fjölmiðla og Demókrata. 

Hætt að greina Trump frá málefnum er varða Rússland

Guardian hefur eftir fyrrverandi embættismanni í Bandaríkjunum að fregnir af verðlaunagreiðslum Rússa hafi borist Hvíta húsinu í fyrravor. Þá var hins vegar ekki búið að afla nægra upplýsinga. Síðan þá hafa fleiri gögn bæst við sem styðja málið, en embættismaðurinn telur að Trump hafi látið þær sem vind um eyru þjóta þar sem þær stönguðust á við óskir hans um gott samband við Vladimír Pútín, forseta Rússlands. 

Frétt CNN frá því í gær styður frásögn fyrrverandi embættismannsins. Þar er haft eftir fleiri fyrrverandi starfsmönnum Hvíta hússins að starfsmenn leyniþjónustunnar væru hætti að greina frá málefnum er varða Rússland á daglegu fundunum, þar sem Trump vildi ekki heyra af þeim. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi