Sjötíu þúsund veirusmit greind í Svíþjóð

02.07.2020 - 17:37
epa08509387 An information sign ask people to keep social distance due to the Covid-19 coronavirus pandemic, where people sunbathe and swim at a bathing jetty in Malmo, Sweden, 25 June 2020, during a heatwave with temperatures over 30 degrees Celcius.  EPA-EFE/Johan Nilsson/TT *** SWEDEN OUT ***
 Mynd: EPA-EFE - TT
Greind kórónuveirusmit eru komin yfir sjötíu þúsund í Svíþjóð. Dauðsföll af völdum veirunnar nálgast fimm þúsund og fimm hundruð.

Aðstoðar-sóttvarnalæknir við lýðheilsustofnunina í Svíþjóð greindi frá því á fundi með fréttamönnum í dag að 41 hefði dáið af völdum COVID-19 síðastliðinn sólarhring. Þar með væru þeir orðnir 5.411. Alls 947 smit voru greind þannig að þau eru samtals orðin 70.639 frá því að byrjað var að skima fyrir kórónuveirunni. Alvarlegum tilfellum hefur farið fækkandi að undanförnu, að sögn heilbrigðisyfirvalda.

Tilkynnt var í dag að frá 7. júlí yrði að vera eins metra fjarlægð milli borða á veitinga- og kaffihúsum og börum, en ekki armslengd eins og hefur gilt hingað til. Gestunum er látið eftir að meta hver fjarlægðin þarf að vera milli þeirra við borðin, en minnt á að þeir eigi ekki að sitja hver ofan í öðrum.

Utanríkisráðuneytið í Danmörku kynnti í dag að vegna fjölgunar smita á Skáni mættu íbúar héraðsins ekki lengur koma til Danmerkur. Einungis þeir sem búa í Kronoberg í Smálöndum, Vesturbotni og Blekinge mega koma yfir landamærin hafi þeir innan við þriggja sólarhringa gamalt vottorð um að þeir séu ekki smitaðir.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi