Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir ekki muna miklu þótt fólk sé fullt til miðnættis

02.07.2020 - 08:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Óvíst er hvenær unnt verður að slaka á samkomubanni, sem kveður á um 500 manna hámark, og rýmka opnunartíma kráa og skemmtistaða sem þurfa áfram að loka klukkan ellefu á kvöldin. Eigandi Dillon í miðbæ Reykjavíkur segir erfitt að vita ekki hvenær því verður breytt. Hann segist skilja tilgang þessara takmarkana en það myndi breyta miklu að fá að hafa opið til miðnættis.

Ekki rekstrargrundvöllur sem gengur upp

„Það myndi strax muna miklu í veltu þó að við fengjum ekki nema klukkutíma í viðbót. Ég sé ekki að muni miklu í smithættu að fólk sé fullt inn á pökkuðum veitingastað klukkan ellefu eða tólf. Þó ég skilji alveg hvað þeir eru að gera. Það er ekki rekstrargrundvöllur til að reka svona stað í bænum eins og staðan er í dag,“ segir Jón Bjarni Steinsson, eigandi Dillon. „Hvað er það sem fólk er að gera inn á skemmtistað milli ellefu og tólf sem það er ekki að gera fyrir ellefu?“

Til stóð að endurskoða samkomutakmarkanir í byrjun júlí en fallið var frá því eftir að ný smit komu upp hérlendis. „Ég er í svona 40-45% af veltu miðað við sama tíma í fyrra. Það er ekki rekstrarmódel sem gengur upp. Það sýna allir skilning, kröfuhafar og aðrir. En það er svo erfitt að geta ekki sagt neinum neitt. Ég veit ekki hvenær þessu verður breytt. Á þetta að vera svona út árið?“ segir Jón Bjarni. 

Lokunarstyrkur ekki borist

Barir og skemmtistaðir þurftu að loka í um þrjá mánuði meðan farsóttin geisaði. „Það er engin hjálp komin enn þá. Það eru lokunarstyrkir sem verða 2,4 milljónir í mesta lagi. Hann er ekki kominn og bætir ekki upp að ég hélt fólki í vinnu í þrjá mánuði þegar það var lokað.“ Skatturinn opnaði fyrir umsóknir um lokunarstyrk um miðjan júní.

En eru skemmtistaðir að fara á hausinn? „Ég hugsa að menn ætli að taka sumarið og sjá til,“ segir Jón Bjarni.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV