Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Saksóknarar vilja að Andrés prins gefi skýrslu

02.07.2020 - 22:05
Saksóknari í New York-ríki í Bandaríkjunum sagði á blaðamannafundi í dag að hún vilji ræða að Andrés Bretaprins vegna rannsóknar á brotum barnaníðingsins Jeffrey Epstein. Saksóknarinn, Audrey Strauss, vildi ekkert gefa upp um stöðu prinsins við rannsóknina. Fyrrverandi kærasta Epstein var handtekin af FBI, alríkislögreglu Bandaríkjanna, í dag.

Andrés prins og Epstein voru vinir og hefur prinsinn verið sakaður um að hafa þrisvar sinnum brotið kynferðislega á stúlku undir lögaldri, skömmu fyrir aldamót, þar á meðal á einkaeyju Epstein í Karabíska hafinu.

Það var fyrrum unnusta barnaníðingsins, Ghislaine Maxwell, sem var handtekin í dag, sem kynnti þá Andrés og Epstein. 

Sjá einnig: Fyrrum kærasta Jeffrey Epstein handtekin af FBI

Audrey Strauss, starfandi saksóknari New York ríkis, greindi frá handtöku Maxwell í dag. Hún er meðal annars sökuð um að hafa hjálpað Epstein að finna stúlkur í viðkvæmri stöðu og fyrir að hafa einnig níðst á stúlkunum. Henni er gefið að sök að hafa unnið sér inn traust stúlknanna og komið þeim í kynni við Epstein. Oft hafi þær verið beðnar um að nudda hann og að í kjölfarið hafi hann níðst á þeim. Maxwell hefur alltaf neitað ásökunum.

Saksóknarinn sagði á blaðamannafundi að alríkislögreglan vilji gjarna ræða við Andrés prins vegna rannsóknarinnar. Hún vildi þó ekki láta neitt uppi um stöðu hans við þessa rannsókn. 

Sjá einnig: Andrés prins, Epstein og viðtalið hörmulega

Árið 2005 var Epstein ákærður fyrir að misnota fjórtán ára stúlku og var dæmdur í átján mánaða fangelsi. Rannsókn hefur leitt í ljós brot hans á hundruðum stúlkna, flestum á aldrinum þrettán til sextán ára. Hann var handtekinn í júlí í fyrra en svipti sig lífi í fangaklefa í ágúst.

Andrés prins hefur neitað öllum ásökunum. Hann sagði sig frá öllum opinberum skyldum við bresku hirðina í fyrra eftir umdeilt sjónvarpsviðtal í breska ríkissjónvarpinu um vinskapinn við Epstein.

epa08523985 Acting United States Attorney for the Southern District of New York Audrey Strauss speaks during a news conference to announce charges against Ghislaine Maxwell for her alleged role in the sexual exploitation and abuse of multiple minor girls by Jeffrey Epstein in New York, USA, 02 July 2020.  EPA-EFE/JASON SZENES ALTERNATIVE CROP
Audrey Strauss, saksóknari, á blaðamannafundinum í dag. Mynd: EPA-EFE - EPA