Rannsókn sýnir færri eiturefni í einnota bleyjum

02.07.2020 - 10:34
Mynd með færslu
 Mynd: burst.shopify.com
Frönsku neytendasamtökin greina frá því að eiturefnum í einnota bleyjum hafi fækkað. Í skýrslu sem kynnt var í fyrra kom fram að fjölmörg efnasambönd og efni sem talin eru hættuleg heilsu manna og geta jafnvel valdið krabbameini væri að finna í einnota bleyjum fyrir kornabörn.

Þetta eru efni eins og díoxín, fúran, ilmefni úr olíu og formaldehýð. Rannsóknin tók til 23 vörumerkja bleyja og stóð yfir í tvö ár. Mörg vörumerkjanna eru þekkt og notuð um allan heim.

Frönsku neytendasamtökin segja að 34 tegundir hafi verið prófaðar og bornar saman við fyrri rannsókn og höfðu orðið greinilegar framfarir. Gildi hafi hvergi fundist yfir heilsuverndarmörkum fyrir ungbarnableyjur. Þá fundust engin merki um skordýraeitur eins og glýfosat sem fannst í rannsókninni í fyrra.

Hins vegar voru enn of há gildi formaldehýðs í þremur sýnum, þar á meðal í Pampers Premium Protection-bleyjum. AFP hefur eftir Antoine Giuntini, framkvæmdastjóra hjá Pampers, að hann dragi niðurstöðuna í efa, formaldehýð hefði ekki fundist í rannsókn á vegum fyrirtækisins. „Þetta sýnir að þessar leifar af formaldehýði komu ekki úr bleyjum frá okkur heldur annars staðar frá,“ segir hann. 

Þá þóttu gildi fjölhringa, arómatísk vetniskolefna (PAH) í tveimur tegundum bleyja vera áhyggjuefni. Efnin hafa verið tengd við krabbamein og hjartasjúkdóma. 

Rannsóknin í fyrra var sögð sú fyrsta sinnar tegundar og varð til þess að frönsk stjórnvöld kröfðust þess af framleiðendum að efnin yrðu fjarlægð úr bleyjum. 

Frönsku neytendasamtökin segja í tilkynningu sem AFP vísar í að Frakkland haldi áfram að beita sér fyrir því á vettvangi Evrópusambandsins að ströng skilyrði verði sett um efni og efnasambönd í bleyjum fyrir kornabörn. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi