Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Meta stofnstærð makríls í 30 daga leiðangri

Mynd með færslu
Árni Friðriksson RE. Mynd: Smári Geirsson/svn.is
Vísindamenn frá Hafrannsóknastofnun héldu í gær af stað í fjölþjóðlegan rannsóknarleiðangur, meðal annars til að meta stærð makrílstofnsins. Tvö síðustu ár hefur minna verið af makríl sunnan og vestan við Ísland en áður.

Þessar rannsóknir hafa verið gerðar árlega í júlí frá árinu 2009. Sex skip eru í leiðangrinum með vísindamenn frá fimm löndum. Anna Heiða Ólafsdóttir, fiskifræðingur og verkefnisstjóri leiðangursins, segir að höfuðáhersla sé lögð á makríl þó aðrar tegundir séu einnig rannsakaðar. Úr gögnum verði búin til vísitala sem nýtist við mat á stærð makrílstofnsins.

Minni makríll í landhelginni síðustu tvö ár

„Við höfum séð það, bæði í þessum leiðöngrum sem við förum í og líka í aflagögnum, að 2018 og 2019 mældist minni makríll í landhelginni í leiðangrinum og skipin veiddu minna í íslenskri landhelgi heldur en þau gerðu árin á undan," segir hún. Þetta hafi sést mjög greinilega því leiðangurinn sé alltaf farinn á sama tíma og engar breytingar gerðar frá fyrri árum.

Sést í þessum leiðangri hvort það er að draga úr makrílgöngum   

„Við erum spennt að sjá hvað gerist núna, hvað við mælum mikið af makríl. Sérstaklega á svæðinu hérna fyrir sunnan land þar sem hefur alltaf verið það svæði þar sem er mest af makríl, og fyrir vestan. Og ef þú bara skoða aflatölur og leiðangurinn frá í fyrra, þá var mjög lítið af makríl fyrir vestan," segir Anna Heiða. Ef komi í ljós þriðja árið í röð að mjög lítið er af makríl fyrir vestan landið og minna fyrir sunnan, sé ekki annað hægt en að velta því fyrir sér hvort það sé að draga úr makrílgöngum inn á þetta svæði.

Stofnmatið hafi áhrif á veiðiráðgjöf fyrir næsta ár

Þetta og fleira komi í ljós að leiðangrinum loknum. Stofnmatið hafi áhrif á hversu mikið má veiða á næsta ári. „Vísitalan sem kemur í þessum leiðangri fer í stofnmatið þarna í lok ágúst og það hefur þar af leiðandi áhrif á niðurstöðuna," segir Anna Heiða.